Erlent

Vinna með yfir­völdum í níu löndum að bera kennsl á látna

Atli Ísleifsson skrifar
Eldsvoðinn varð á skemmtistaðnum Le Constellation í Crans-Montana á nýársnótt.
Eldsvoðinn varð á skemmtistaðnum Le Constellation í Crans-Montana á nýársnótt. EPA

Svisslendingar vinna nú með yfirvöldum í níu löndum að því að bera kennsl á þá sem fórust í eldsvoðanum að skemmtistaðnum Le Constellation í Crans-Montana á nýársnótt. Upptök eldsins eru rakin til notkunar blysa í kjallara staðarins. Vitað er að fjörutíu manns týndu lífi í eldsvoðanum og 119 manns eru enn á sjúkrahúsi.

Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi lögreglunnar og stjórnvalda í kantónunni Valais nú síðdegis.

Lögreglustjórinn Frederic Gisler sagði á fundinum að kvöld um 150 einstaklinga hafi breyst í „hrylling“ og að mikilvægasta verkefnið nú sé að bera kennsl á hina látnu. Af þeim 119 sem slösuðust er búið að bera kennsl á 113. Af þeim eru 71 svissneskur ríkisborgari, fjórtán franskir, ellefu ítalskir, fjórir serbneskir, einn bosnískur, einn belgískur og einn portúgalskur.

Gisler sagði að enn sé verið að bera kennsl á hina látnu og er unnið að því með yfirvöldum níu landa – Frakklandi, Belgíu, Póllandi, Portúgal, Austur-Kongó, Serbíu, Tyrklandi, Rúmeníu og Filippseyjum.

Bíða milli vonar og ótta

Mathias Reynard, forsætisráðherra Valais, sagði á fundinum að verið sé að hlúa að um helmingi þeirra sem slösuðust á sjúkrahúsi í Valais, en að flytja hafi þurft fjölda slasaðra á önnur sjúkrahús. Hann segir að aðstandendur bíði margir milli vonar og ótta á meðan unnið sé að því að bera kennsl á látna og slasaða. Slík bið sé óbærileg. 

„Þetta er harmleikur fyrir Valais. Þetta er líka harmleikur fyrir Sviss og Evrópu alla,“ sagði Reynard.

Upptök rakin til notkunar blysa

Beatrice Pilloud, dómsmálaráðherra Valais, sagði á fundinum að upptök eldsins og sprengingarinnar sem varð hafi orðið vegna blysa í kampavínsflöskum.

„Þessi blys voru of nálægt loftinu. Þetta leiddi til þess sem kallast „yfirtendrun“, og eldurinn breiddist hratt út,“ sagði Pilloud. Þegar yfirtendrun á sér stað gefur eldur frá sér brennanlegan reyk þannig að eldurinn breiðist sérstaklega hratt út.


Tengdar fréttir

Fyrsta fórnar­lambið nafn­greint

Golfsamband Ítalíu hefur staðfest að Emanuele Galeppini, sautján ára kylfingur sem hefur verið búsettur í Dúbaí, hafi farist í eldsvoðanum á skemmtistað í svissneska skíðabænum Crans-Montana á nýársnótt. Galeppini er fyrsta fórnarlambið sem hefur verið nafngreint opinberlega en um fjörutíu manns fórust í brunanum.

Fimm daga þjóðarsorg lýst yfir í Sviss

Stjórnvöld í Sviss hafa lýst yfir fimm daga þjóðarsorg vegna eldsvoðans á barnum Le Constellation í skíðabænum Crans-Montana, þar sem 40 létu lífið og að minnsta kosti 115 særðust. Unnið er að því að bera kennsl á látnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×