Erlent

Þrí­tugasta á­rásin á bát meintra smyglara

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndbandið sem bandaríski herinn hefur birt er í mjög lélegum gæðum en það virðist sýna tvo menn um borð í litlum báti. Báturinn verður síðan fyrir að minnsta kosti tveimur sprengjum.
Myndbandið sem bandaríski herinn hefur birt er í mjög lélegum gæðum en það virðist sýna tvo menn um borð í litlum báti. Báturinn verður síðan fyrir að minnsta kosti tveimur sprengjum.

Forsvarsmenn varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna opinberuðu í gærkvöldi þrítugustu árásina á bát sem sagður er hafa verið notaður til að smygla fíkniefnum til Bandaríkjanna. Árásin var gerð á Kyrrahafinu undan vesturströndum Suður-Ameríku og munu tveir menn hafa verið um borð í bátnum þegar hann var sprengdur.

Donald Trump og starfsfólk hans hafa haldið því fram að Bandaríkin eigi í átökum við fíkniefnasamtök í Suður-Ameríku sem hafa verið skilgreind sem hryðjuverkasamtök. Því hefur verið haldið fram að þessir meintu smyglarar séu vígamenn og Bandaríkin eigi í átökum við þá.

Átök þessi eiga að vera sambærileg átökum Bandaríkjanna við hryðjuverkamenn svo þingið þurfi ekki að lýsa yfir stríði, í samræmi við lög.

Árásirnar eru verulega umdeildar en Bandaríkjamenn hafa ekki fært sannir fyrir ásökunum sínum um að bátarnir séu notaðir til að smygla fíkniefnum. Þar að auki er ekki dauðarefsing fyrir fíkniefnasmygl í neinu ríki Bandaríkjanna og hafa árásirnar verið gagnrýndar harðlega sem aftökur án dóms og laga.

Í þeim þrjátíu árásum sem vitað er að hafa verið gerðar á báta meintra smyglara er vitað til þess að að minnsta kosti 107 hafi fallið.

Yfirstjórn herafla Bandaríkjanna í Suður-Ameríku birti myndband af árásinni í gær.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur ríkisstjórn Trumps sent umtalsverðan herafla til Karíbahafsins og austanverðs Kyrrahafs. Trump hefur kallað eftir því berum orðum að Nicolas Maduro, forseta Venesúela, verði komið frá völdum en hefur ekki viljað segja hvort hann sé tilbúinn til að beita hervaldi til að velta honum úr sessi.

Trump sagði á dögunum frá því að gerð hefði verið árás á landi í Venesúela en blaðamönnum vestanhafs hefur gengið verulega illa í að fá svör um það hvaða árás Trump var að tala um.

Í viðtali sem birt var á föstudaginn sagði Trump:

„Þeir eru með stóra verksmiðju, eða stóra aðstöðu, þaðan sem skipin koma. Fyrir tveimur dögum, rústuðum við þeim stað. Svo við veittum þeim þungt högg.“

Trump hefur opinberað að hann hafi heimilað leyniþjónustum Bandaríkjanna að fara í aðgerðir í Venesúela og gefið til kynna að loftárásir komi til greina.

Sjá einnig: Neita að tjá sig um ummæli Trumps um árás í Venesúela

segir CNN frá því að Leyniþjónusta Bandaríkjanna (CIA) hafi fyrr í mánuðinum gert drónaárás á höfn í Venesúela. Það er í fyrsta sinn sem vitað er til þess að árás hafi verið gerð á landi í Venesúela.

Samkvæmt heimildum CNN er um að ræða höfn sem talið er að meðlimir gengis sem kallast Tren de Aragua noti til að smygla fíkniefnum til Bandaríkjanna. Enginn er sagður hafa fallið í árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×