Erlent

Banda­ríkin leggja til tvo milljarða dala með skil­yrðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
OCHA áætlar fjárþörf stofnunarinnar fyrir næsta ár um það bil 23 milljarða dala.
OCHA áætlar fjárþörf stofnunarinnar fyrir næsta ár um það bil 23 milljarða dala. Getty/Anadolu/Abuukar Mohamed

Bandaríkjastjórn mun leggja fram tvo milljarða Bandaríkjadala í sjóð undir stjórn Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), í stað þess að fjármagna einstaka undirstofnanir og verkefni í málaflokknum. Frá þessu var greint í gær. 

Ákvörðuninni hefur verið fagnað þar sem óvíst var um framlög Bandaríkjanna til mannúðarmála á næsta ári en þetta er engu að síður verulegur niðurskurður frá því í fyrra, þegar Bandaríkin vörðu 3,4 milljarða dala til mannúðarmála í gegnum Sameinuðu þjóðirnar.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið afar gagnrýninn á fjárhagsaðstoð til erlendra ríkja og verkefna og skorið alla mannúðaraðstoð verulega niður, meðal annars með því að lama USAID. 

Afstaða stjórnvalda endurspeglast í skilaboðunum sem fylgja fjárframlögum næsta árs en þau eru háð því að breytingar verði gerðar á skipulagi málaflokksins innan SÞ til að draga úr yfirbyggingu og komið í veg fyrir tvíverknað og hugmyndafræðileg áhrif.

„Einstaka stofnanir Sameinuðu þjóðanna verða að aðlagast, draga saman seglinn eða deyja,“ segir í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.

Fjárframlagi Bandaríkjanna verður varið til aðstoðar í sautján ríkjum, þeirra á meðal El Salvador, Gvatemala og Hondúras en ekki Afganistan og Jemen, sem eru á forgangslista SÞ. Þá verða fjármunirnir ekki nýttir til aðstoðar á Gasa en öll verkefni þar verða fjármögnuð eftir öðrum leiðum.

Stjórnvöld vestanhafs segja að ráðstöfun fjársins með þessum hætti, það er að segja í einn sjóð í stað hundruða einstakra styrkveitinga, muni spara allt að tvo milljarða dala.

New York Times greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×