Lífið

Jóla­gjafir ís­lenskra vinnu­staða

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Eflaust litu fæstir pakkarnir svona út þar sem að gjafabréfin voru einstaklega áberandi.
Eflaust litu fæstir pakkarnir svona út þar sem að gjafabréfin voru einstaklega áberandi. Getty

Nú styttist óðum í að flestir landsmenn tylli sér við jólatréð og opni jólagjafir. Líkt og síðustu ár eru gjafabréfin vinsælust en miðað við samantekt Vísis verður brjálað að gera í Kringlunni á næstunni.

Starfsfólk Arion banka og Varðar eru meðal þeirra sem munu láta sjá sig í Kringlunni en þau fengu 60.000 króna gjafabréf í verslunarmiðstöðina. 

Starfsfólk Landsbankans fær að velja á milli gjafabréfa upp á 65.000 krónur hjá Icelandair, 69.000 krónur hjá Epal, 90.000 krónur hjá 66 norður, 67.000 krónur í Sælkerabúðina eða 55.000 krónur hjá Yay. Seðlabankinn leyfir starfsfólki sínu að velja á milli gjafabréfa að andvirði 40.000 króna í S4S, Sælkerabúðina, Íslandshótel eða Örninn golfverslun. 

Starfsfólk Skaga, sem á fjárfestingabankann Fossa og Vís, fær Marshall-hátalara og 30.000 króna gjafabréf í Sælkeraverslunina. Hjá Lyfjavali, sem er í eigu Dranga, er 30.000 króna gjafabréf hjá Nettó í jólapakkanum og stendur einnig val á milli vínflösku eða konfekts. 

Líkt og fyrri ár gefur Marel 50.000 krónur í Kringluna og tvo frídaga í kringum jól og áramót. Mannskapurinn sem starfar hjá Icelandair mun líklegast einnig láta sjá sig í Kringlunni þar sem þau fá gjafabréf upp á 30.000 krónur. Össur fer sömu leið og gefur 50.000 krónur í Kringluna.

Hjá Sjóvá leynist gjafakort upp á Draumagistingu hjá Íslandshótelum í pakkanum.

Fjölmiðlarnir fæða fólkið

Árvakur vill ekki að starfsfólk sitt verði svangt um jólin en í jólapakka þeirra leynist 25.000 gjafakort í Bónus, Nóa Siríus-konfekt og matreiðslubók. Rúv hefur einnig hugsað á sömu nótunum en þar fá allir 15.000 króna gjafabréf í Sælkerabúðina, konfekt og túlípana. Sýn leyfði starfsfólki sínu að velja á milli gjafabréfs í Hagkaup, Icelandair eða S4S að andvirði 20.000 til 25.000 króna. 

Starfsfólk Símans gat valið á milli 100.000 króna í 66 norður eða 80.000 krónur í versluninni Ásbjörn Ólafsson. 

Gjafirnar sem valda valkvíða

Gjafir Landspítalans og Eimskipa eru líklegastar til að valda valkvíða. Hjá Landspítalanum er hægt að velja um gjafabréf í Fjallakofann, Kjötkompaní, Icewear, Sky Lagoon, Kol & Monkeys, Þjóðleikhúsið, Yay-gjafabréf eða að styrkja góðgerðamál í gegnum Mía Magic. Gjafabréfin voru frá 8.000 krónum upp í 15.900 krónur. 

Eimskip er með álíka marga valkosti en þar má velja á milli gjafabréfa í Icelandair, 66 norður, Bónus, Ormsson, Líf og list og Berjaya en upphæð gjafabréfanna var frá 40.000 krónum upp í 60.000 krónur.

Einnig er úr nægu að velja hjá Orkuveitu Reykjavíkur þar sem starfsfólki stendur til boða að velja á milli 35.000 króna í 66 norður, 28.000 króna í Sindra, 25.000 króna í Dineout, 20.000 króna hjá Íslandshótelum eða að styrkja Píeta um tuttugu þúsund krónur.

Fáir mjúkir pakkar

Borgarleikhúsið leitaði ekki langt en þar fær starfsfólk 25.000 króna gjafabréf í Kringluna. Sinfóníuhljómsveit Íslands stendur til boða að velja á milli ítalsks matarkassa, vínflöskukassa eða gjafabréfs í Eymundsson.

Sveitarfélög víðs vegar um landið gefa álíka gjafir. Reykjavíkurborg gefur starfsfólki sínu val á milli gjafabréfs í Borgarleikhúsið, gjafabréfs hjá Sinfóníuhljómsveitinni eða gjafabréfs á Ylströndina í Nauthólsvík. Akureyrarbær gefur starfsfólki sínu 10.000 króna gjafabréf í Nettó og miða fyrir tvo á listasafn Akureyrar. Í Kópavogsbæ er gjafabréf upp á 10.000 krónur hjá Dineout í jólapakkanum en í Garðabæ eru það 15.000 krónur í verslanir Kringlunnar.

Frumlega leiðin var farin í Vestmannaeyjabæ en þau gefa 9.000 króna gjafabréf í verslanir í Vestmannaeyjum en það var í jólakorti sem fyrstu bekkingar hönnuðu. Þau fengu einnig jólasvein sem starfsfólk í Heimaey, vinnu- og hæfingarstöð, bjó til.

Sýslumaðurinn á Austurlandi gefur sínu fólki tvo frídaga. Starfsfólk Sorpu bætist í hóp þeirra sem flykkjast í Kringluna.

Afar fáir mjúkir pakkar eru á lista ársins. Í þeirra hópi Vegagerðinni sem gefur ullarbuxur frá 66 norður auk húfu og vettlinga og stjórnarráðið sem gefur bambus-sængurver úr Vouge. Betri samgöngur gefa einnig mjúkan pakka en í honum er ullarteppi.

Háskólinn í Reykjavík leitaði líka í gjafakortið en starfsfólk þeirra fær sextíu þúsund króna gjafakort í Kringluna. Þeir sem starfa hjá Háskólanum á Akureyri fá gjafabréf upp á fimmtán þúsund krónur í Fisk Kompaní en starfsfólk Háskóla Íslands fær að velja á milli níu gjafakassa frá Akkúrat.

Gjafabréfin allsráðandi

Jólapakki Brimborgar samanstendur af 25.000 króna gjafabréfi í Bónus og rauðvínsflösku en hjá Kletti - sölu og þjónustu er 50.000 króna gjafabréf í Hagkaup í pakkanum. 

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP gefur starfsfólki sínu 40.000 króna gjafabréf í ýmsar verslanir. Hugbúnaðarfyrirtækið Plaio fer þvert á viðmið um gjafabréf og fær starfsfólk þeirra pizzaofn frá Ooni. Í jólapökkum frá Sensa má finna 60.000 króna gjafakort í Kringluna.

S4S, sem rekur verslanirnar Air, Ecco, Kaupfélagið, Ellingsen, Skechers og Steinar Waage, leitaði ekki langt líkt og fyrri ár en starfsfólk þeirra fær 40.000 króna inneign í verslanir S4S. Sömu sögu má segja um starfsfólk Olís, sem fær 50.000 króna inneign í verslanir Haga, sem eru Olís, Hagkaup og Bónus. Í jólapakka frá Útilíf er 15.000 króna inneign í verslunina auk hanska, bakpoka og konfekts.

Natan hf. og Emmessís bætast í hóp þeirra sem gefa gjafabréf í Kringluna, upp á 35.000 krónur en sé starfsfólkið ekki til í að fara í verslunarmiðstöðina geta þau einnig valið sér nótt fyrir tvo hjá Fosshótelum og gætt sér á morgunmat í boði fyrirtækisins.

Íslandshótel fer á móti straumnum í ár og gefur 30.000 króna gjafabréf í Smáralinda auk kassa af Julebryg, kassa af Appelsín og súkkulaði. Það sama gerði Bílaumboðið Askja sem gefur 40.000 króna gjafabréf í Smáralind eða 66 norður og einnig frídag til að nota í kringum hátíðarnar.

Payday fylgdi hins vegar straumnum og fær starfsfólk þar 50.000 króna gjafabréf í verslanir Kringlunnar.

Þessi listi er langt frá því að vera tæmandi yfir þær jólagjafir sem íslenskir vinnustaðir gáfu starfsfólki sínu. Sendu okkur endilega upplýsingar á ritstjorn@visir.is ef þú hefur eitthvað við listann að bæta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.