Skoðun

Teygjum okkur að­eins lengra

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Nú fer í hönd sá tími árs sem margir tengja við samveru, hlýju og von. En þetta getur einnig verið erfiðasti tími ársins. Jól og áramót draga fram tilfinningar sem liggja oft undir yfirborðinu og minna fólk á það sem vantar, rofin tengsl og aðstæður sem ekki breytast þótt hátíð gangi í garð.

Fólk í afplánun eða á sjúkrastofnunum, heimilislausir, fátækir og annað jaðarsett fólk upplifir oft mikinn þunga í desember. Sumir fá heimsóknir en aðrir sitja einir. Sumir fá að koma í stutta stund heim til fjölskyldu sem annars stendur þeim ekki til boða. Aðrir eiga ekkert heimboð og eftir þeim bíður enginn. Skilin verða skarpari þegar samfélagið gleðst sem eitt.

Sterkar tilfinningar vakna, söknuður, skömm, vonbrigði en stundum von. Það er mikilvægt að við gleymum ekki fólkinu sem fer ekki með tilfinningar sínar á torg heldur ber harm sinn í hljóði. Lítil athöfn getur haft mikið gildi. Það þarf ekki meira en símtal, skilaboð, heimsókn, eða einfaldlega það að nefna einhvern með nafni til sýna að hann sé ekki gleymdur.

Afstaða - réttindafélag vill minna fólk á að teygja sig aðeins lengra en venjulega. Hugsa til þeirra sem standa utan við hefðbundin hátíðarhöld. Fyrir sum skiptir slíkt sköpum. Mannleg reisn, samhygð og samstaða eiga ekki að fara í frí yfir hátíðirnar.

Höfundur er formaður Afstöðu.




Skoðun

Sjá meira


×