Skoðun

Traustur grunnur, ný tæki­færi

Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Reykjalundur hefur um langt árabil verið burðarás í endurhæfingu á Íslandi. Ræturnar liggja í sterkum gildum, fagmennsku og þjónustu sem hefur mótast af lífi og starfi fjölda sérfræðinga sem helgað hafa sig því að styrkja einstaklinga til betra lífs.

Nú stendur Reykjalundur frammi fyrir nýjum tækifærum sem kalla á að við nýtum þá reynslu sem safnað hefur verið svo endurhæfing á Íslandi verði áfram byggð á heildrænni nálgun, þverfaglegu samstarfi og mannlegri nánd sem hefur reynst svo vel í gegnum tíðina.

Samningur við stjórnvöld: Markmið og rekstrarforsendur

Meðferðarstarf Reykjalundar byggist alfarið á greiðslum frá stjórnvöldum, þ.e. í gegnum þjónustusamning við Sjúkratryggingar Íslands. Þetta eru einu tekjur stofnunarinnar og þar með lykilforsenda þess að hægt sé að halda uppi mikilvægri þjónustu sem stenst kröfur samfélagsins.

Þess vegna er það réttmætt og í senn hófsöm og eðlileg krafa að samningar okkar tryggi ekki aðeins launagreiðslur þeirra sem sinna þjónustu við sjúklinga á Reykjalundi, heldur einnig að greiðslur nái yfir húsnæði sem uppfyllir kröfur um nútíma endurhæfingu, rekstur og viðhald húsnæðis og búnaðar og starfsaðstöðu fyrir þverfaglega teymisvinnu sérfræðinga.

Fjárfesting sem margborgar sig

Fjárfesting í endurhæfingu er ekki einvörðungu kostnaður – hún er mikilvæg forvörn. Hún tryggir að einstaklingar nái fyrr betri heilsu, búi við meira sjálfstæði og minnkar þörf fyrir dýrari meðferðir annars staðar í heilbrigðiskerfinu.

Með öðrum orðum: þegar stjórnvöld fjárfesta í traustum grunni Reykjalundar er það fjárfesting í sjálfu samfélaginu.

Horft fram á við

Reykjalundur er öflug stofnun sem hefur alla burði til að þróa áfram fjölbreytta starfsemi í takt við breyttar þarfir samfélagsins. Þar má nefna:

  • Heilsueflingu og forvarnir þar sem áhersla er lögð á hreyfingu, næringu, streitustjórnun og geðræna heilsu í samstarfi við sveitarfélög og aðra þjónustuaðila.
  • Endurhæfingu tengda langvinnum verkjum, stoðkerfisvandamálum og þreytuheilkennum.
  • Sérhæfða starfsendurhæfingu fyrir fólk sem vill snúa aftur á vinnumarkað.
  • Samstarf við háskóla, heima og erlendis, um rannsóknir og þróun endurhæfingar sem getur styrkt bæði faglegt starf og nýsköpun.
  • Miðstöð fyrir fjölskyldumeðferð í tengslum við endurhæfingu.
  • Samþættingu þjónustu með annarri heilbrigðis- og félagsþjónustu, t.d. á Grensási. Einnig þarf að bæta sérhæfða sálfræðiþjónustu, fræðslu, handleiðslu og greiningarvinnu.

Þetta eru aðeins dæmi um þætti sem myndu styrkja endurhæfingarstarf Reykjalundar – og allt þetta á samleið með hefð Reykjalundar um heildræna nálgun.

Framtíð byggð á traustum grunni

Reykjalundur stendur á tímamótum sem gefa tilefni til bjartsýni. Með því að halda áfram að vinna í anda þess sem hefur mótað stofnunina frá upphafi – þekking, samkennd og faglegt samstarf – eru allar forsendur til staðar á Reykjalundi til að auka og þróa enn frekar bæði endurhæfingarstarfsemi og tengda heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

Á sama tíma þarf fjármögnun stjórnvalda að tryggja raunhæfar rekstrarforsendur, þannig að það starf sem byggt hefur verið upp á liðnum 80 árum á Reykjalundi fái að dafna og þjóna þjóðinni áfram.

Spurningin er ekki hvort við höfum efni á að sinna öflugri endurhæfingu, heldur hvort við höfum efni á að gera það ekki.

Höfundur er starfandi forstjóri og stjórnarformaður Reykjalundar.




Skoðun

Sjá meira


×