Erlent

Úkraínu­menn reiðu­búnir til að falla frá aðild að Nató

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Selenskí fundaði með Steve Witkoff og Jared Kushner í Berlín í gær.
Selenskí fundaði með Steve Witkoff og Jared Kushner í Berlín í gær. Getty/Guido Bergmann

Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti segir Úkraínumenn reiðubúna til að falla frá fyrirætlunum sínum um að ganga í Atlantshafsbandalagið, gegn pottþéttum öryggistryggingum.

Selenskí fundaði með Steve Witkoff, sendifulltrúa Donald Trump Bandaríkjaforseta, og Jared Kushner, tengdasyni Trump, í fimm tíma í gær. Witkoff sagði eftir fundinn að mikill árangur hefði náðst en tjáði sig ekki um einstaka atriði.

Ráðamenn í Kænugarði eru sagðir liggja yfir drögum að tillögum um friðarsamkomulag við Rússa og þá mun Selenskí tjá sig nánar um málið eftir frekari viðræður við Bandaríkjamennina í dag.

Fundirnir fara fram í Berlín og aðrir Evrópuleiðtogar eru væntanlegir þangað í dag fyrir frekari fundarhöld. 

Viðsnúningur Úkraínu varðandi Nató markar tímamót en Úkraínumenn hafa lagt mikla áherslu á að ganga í bandalagið til að tryggja sig frá frekari árásum og ágangi af hálfu Rússa. Selenskí sagði að í stað Nató aðildar yrðu hins vegar að koma löglega bindandi fyrirheit frá Bandaríkjunum, Evrópu og mögulega Kanada og Japan, um að verja Úkraínu fyrir Rússum.

Rússar hafa krafist loforða um að Nató stækki ekki í austurátt, það er að segja að Úkraína, Georgía og Moldavía fái ekki að ganga í bandalagið.

Enn er unnið að 20 punkta friðaráætlun í stað þeirrar sem Bandaríkjamenn lögðu fram í síðasta mánuði. Nýju drögin munu líklega fela það í sér að framlínan verði fryst eins og er í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×