Erlent

Sex­tán látin: Skotmennirnir feðgar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Tugir eru særðir og 16 látnir.
Tugir eru særðir og 16 látnir. Vísir/AP

Lögregla greinir frá því að mennirnir sem skutu tugi á Bondi-strönd í Ástralíu í gær eru feðgar. Faðirinn, 50 ára, er látinn, og sonur hans, 24 ára, í lífshættu á spítala. Fjöldi látinna er nú sextán í kjölfar skotárásar á gyðingahátíð á Bondi-strönd á útjaðri Sydney-borgar í Ástralíu fyrr í dag. 

Greint var frá því á blaðamannafundi í dag að tveir væru grunaðir og að þeir væru feðgar.

„Annar er látinn, hinn er í lífshættulegu en stöðugu ástandi á sjúkrahúsi,“ er haft eftir Mal Lanyon, aðstoðaryfirlögregluþjóni, í frétt ástralska miðilsins 7 News.

Lanyon sagði að í tengslum við rannsóknina hefði lögreglan í Nýja Suður-Wales framkvæmt tvær húsleitir í gærkvöldi, aðra í Bonnie Rigg og hina í Campsie. Hann sagði faðirinn með gilt skotvopnaleyfi. Hann hafi átt sex skotvopn og að lögregla hafi fundið sex skotvopn á vettvangi. 

Tólf ára meðal látinna

Í Ástralíu er nú morgun og í erlendum miðlum kemur fram að Ryan Park, heilbrigðisráðherra New South Wales, hafi greint frá því að eftir nóttina hafi látnum fjölgað úr 12 í 16. Meðal látinna sé tólf ára gamalt barn. Þá hefur særðum einnig fjölgað úr 29 í 38. Samkvæmt Park eru þrjú börn meðal særðra á spítalanum. Frétt AP.

Fjöldi hafði komið sér fyrir á ströndinni. Hér má sjá jólalautarferð sem skilin var eftir í kjölfar skotárásarinnar. Vísir/AP

Árásin átti sér stað á einni vinsælustu strönd Ástralíu, Bondi-strönd, við lok dags. Í Ástralíu er nú sumar og var mikill fjöldi á ströndinni bæði til að njóta veðurs en einnig til að fagna ljósahátíð Gyðinga sem hefst í dag.

Í myndböndum sem eru í dreifingu á samfélagsmiðlum sjást minnst tveir svartklæddir menn skjóta ítrekað að ströndinni frá bílastæði, en sögur fara af því að hleypt hafi verið af í kringum 50 skotum. Fjallað er um það í erlendum miðlum að lögreglan hafi farið í húsleit heima hjá öðrum skotmanninum, á heimili hans í Sidney.

Anthony Albanese forsætisráðherra Ástralíu sagði í gær að árásin væri hryðjuverk og gyðingahatur. Ekki hafa fleiri látið lífið í skotárás í Ástralíu í þrjá áratugi. Albanese sagði blaðamönnum í höfuðborginni Canberra í gær að hann væri harmi sleginn yfir þessum fjöldamorðum.

„Þetta er markviss árás á ástralska gyðinga á fyrsta degi ljósahátíðar gyðinga, sem ætti að vera gleðidagur, hátíð trúarinnar. Illverk, gyðingahatur og hryðjuverk sem hafa lent beint í hjarta þjóðar okkar,“ sagði Albanese.

Mikill viðbúnaður er víða í Sidney og nærri Bondi-ströndinni. Í Ástralíu er nú mánudagsmorgun og er myndin tekin snemma morguns þar. Vísir/AP

Hann hét því að ofbeldinu yrði mætt með samstöðu.

Fleiri leiðtogar hafa tjáð sig um árásina. Karl Bretakonungur sagði að hann og Kamilla drottning væru „skelfingu lostin og harmi slegin yfir þessari hræðilegu hryðjuverkaárás, sem byggði á gyðingahatri“.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, sagði á X að hann hefði fyllst hryllingi og að hann stæði með gyðingasamfélaginu um allan heim.

Meiri viðbúnaður lögreglu

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Marco Rubio, skrifaði í færslu á X: „Bandaríkin fordæma harðlega hryðjuverkaárásina í Ástralíu sem beindist að gyðinglegri hátíð. Gyðingahatur á engan stað í þessum heimi.“

Lögregla í borgum víðs vegar um heiminn, þar á meðal í London, sagðist ætla að auka öryggisgæslu við gyðinglegar stofnanir og samkomustaði.

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að greint var frá því að skotmennirnir væru feðgar. Uppfærð klukkan 20.51 þann 14.12.2025.


Tengdar fréttir

Tíu drepnir í skotárás á gyðingahátíð

Tíu voru skotnir til bana í skotárás á gyðingahátíð á Bondi strönd í Ástralíu í dag. Annar árásarmannanna er látinn og hinn hefur verið handtekinn. Minnst tólf eru slasaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×