Skoðun

Kílómetragjald í blind­götu – þegar stjórn­völd mis­skilja ferða­þjónustuna

Þórir Garðarsson skrifar

Fjármálaráðherra, studdur stjórnarliðum í sínu eigin klappliði, keppist nú við að mála kílómetragjald sem einfalt, sanngjarnt og skynsamlegt skref. Það er gert með skömmum fyrirvara og án raunverulegs skilnings á ferðaþjónustunni áhrifum hennar, eðli eftirspurnar og því hvað í raun ræður afkomu fyrirtækja í greininni. Slíkur misskilningur er ekki smávægilegur, hann er beinlínis varasamur þegar verið er að móta skattastefnu sem hefur víðtæk áhrif á eina af mikilvægustu útflutningsgreinum landsins.

Mikilvægt er að halda því skýrt til haga að með fyrirhuguðu kílómetragjaldi er innheimtan ekki einfölduð, heldur einfaldlega færð frá olíufélögunum yfir á bílaleigufyrirtækin inn í mun flóknara, dýrara og óhagkvæmara kerfi. Þetta er ekki tæknilegt smáatriði heldur grundvallarbreyting sem skapar verulegan viðbótarkostnað fyrir rekstur bílaleiga. Þar má nefna kostnað vegna tæknilegra uppfærslna, nýrra mælikerfa, flóknara bókhalds, aukins umsýslukostnaðar og umfangsmeiri eftirlitsskyldna.

Þessi kostnaður gufar ekki upp. Hann lendir að lokum hjá neytendum og fer beint inn í verðmyndun ferðaþjónustunnar. Í grein þar sem samkeppni er hörð og verðnæmni mikil, sérstaklega meðal erlendra ferðamanna, er þetta bein aðför að samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar.

Ósvífni ríkisstjórnarinnar að fara þessa leið er með ólíkindum, sérstaklega í ljósi þess að fjármálaráðherra telur á sama tíma eðlilegt að ríkissjóður endurgreiði ekki ofgreidda skatta og gjöld, einfaldlega vegna þess að það sé „of mikil vinna“. Slík rök eru ekki aðeins veik heldur bera þau vott um tvöfalt siðgæði, fyrirtækjum og almenningi er gert að taka á sig auknar byrðar og flókið regluverk, á meðan ríkið afsakar eigin vanrækslu með tilvísun í þægindi og skort á stjórnsýslulegri getu.

Burtséð frá þessu einstaka máli er löngu orðið tímabært að lögfesta skýra og bindandi reglu um að breytingar á sköttum og opinberum gjöldum geti ekki tekið gildi nema að loknum raunhæfum aðlögunartíma, til dæmis að lágmarki níu mánuðum. Með slíku fyrirkomulagi fengju fyrirtæki raunhæfan tíma til að undirbúa sig, uppfæra tölvukerfi, laga verklag og meta áhrif á verðlag áður en nýr kostnaður er lagður á og endanlega velt yfir á neytendur.

Slík vinnubrögð ættu að vera lágmarkskrafa í ábyrgri og faglegri stjórnsýslu, ekki undantekning sem gripið er til eftir á, þegar skaðinn er þegar skeður og ábyrgðin skellur á þeim sem síst mega við því.

Höfundur er fyrrverandi varaformaður Samtaka Ferðaþjónustunnar




Skoðun

Sjá meira


×