Handbolti

Stjarna Guð­jóns fer var­lega og mun ekki mæta Ís­landi á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Kay Smits missir aftur af EM í janúar.
Kay Smits missir aftur af EM í janúar. Getty/Henk Seppen

Hollenska handboltastjarnan Kay Smits hefur ákveðið að sleppa Evrópumótinu í janúar. Hann vill sýna varúð þrátt fyrir að vera kominn á fulla ferð eftir hjartavöðvabólgu.

Smits missti af síðasta EM, fyrir tveimur árum, vegna hjartavöðvabólgunnar en sneri aftur með hollenska landsliðinu á HM í byrjun þessa árs.

Hann varð svo aftur að taka sér hlé en hefur verið í fantaformi með Gummersbach í vetur og notið sín undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar. Smits er bæði næstmarkahæstur og með næstflestar stoðsendingar fyrir Gummersbach í vetur, á eftir Julian Köster, eða með 72 mörk og 35 stoðsendingar í 15 leikjum.

Álagið á stórmóti er hins vegar enn meira en það sem leikmenn glíma við hjá sínum félagsliðum og Smits ætlar því að sleppa EM.

„Allar læknisrannsóknir síðustu mánaða hafa verið jákvæðar og ekkert mælir á móti þátttöku á Evrópumótinu. Þrátt fyrir það vil ég fylgjast vel með álaginu og hef ákveðið að sleppa þessu móti,“ segir Smits á Handbal.nl.

„Mér líður vel og er í fullkomnu formi, en stórmót krefst annars takts og annars konar álags. Þetta var erfið ákvörðun, því ég elska að vera hluti af hollenska landsliðinu og Evrópumót í janúar er alltaf frábær upplifun. Í bili er hins vegar í forgangi að sýna varkárni og ég vil ekki flýta mér um of,“ bætir hann við.

Þar með er ljóst að Ísland mun ekki eiga við Smits ef bæði Ísland og Holland komast áfram í millriðla á EM. Hollendingar eru reyndar í mjög erfiðum riðli með heimaliði Svía og HM-silfurdrengjum Dags Sigurðssonar í króatíska landsliðinu, auk Georgíu. Tvö þessara liða fara í milliriðil með tveimur liðum úr F-riðli (Ísland, Ungverjaland, Pólland og Ítalía) og tveimur úr D-riðli (Slóvenía, Færeyjar, Svartfjallaland, Sviss).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×