Skoðun

Sjálf­gefin ís­lenska – Hvernig?

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson skrifar

Íslenska er ekki sjálfgefin á Íslandi. Skrýtið!? Enska er sjálfgefna málið í samskiptum Íslendinga og innflytjenda. Aðeins 18% innflytjenda telja sig kunna góða íslensku.En kannski er það ekki skrýtið ef „allir“ tala ensku við innflytjendur, líka þegar þeir, innflytjendur, kunna ekki ensku. Enska er meira að segja oft töluð við börn og þá ekki einu sinni börn sem hafa ensku að móðurmáli.

Stóra spurningin er: Viljum við þetta? Viljum við skipta fólki í þá sem málið kunna og þá sem það ekki kunna? Ef svarið við þeirri spurningu er „já“ þá er íslenskt samfélag á hárréttri leið. Sé vilji til að snúa af þeirri braut er margt sem laga þarf, margt sem leysa þarf.

Málið verður ekki leyst á einni nóttu. Málið verður heldur ekki leyst með frösum og innantómu gjálfri stjórnmálamanna núverandi og fyrrverandi. Það er margt sem þarf að koma til FRAMKVÆMDA. Einn þáttur sem er mjög vegamikill, kannski sá mikilvægasti og hann er sá að móðurmálshafi þarf að vera meðvitaður um að hann hafi ýmislegt til málanna að leggja, að hann geti haft áhrif.

Hér koma því nokkrir punktar sem mætti spyrða saman við hugtakið almannakennari sem komið er frá Peter Weiss. Hann lagði átakinu Íslenskuvænt samfélag – við erum öll almannakennarar téð hugtak á sínum tíma. Punktunum er ekki ætlað að vera heilagur sannleikur heldur eitthvað sem vekur kannski til umhugsunar. Hér er enga töfralausn að finna en kannski hluti lausnar.

-Þú þarft ekki að tala ensku þótt töluð sé enska við þig. Þér ber engin skylda til þess. Ef þú vilt ekki tala ensku þá er það í fínu lagi. Enginn ætti að krefjast þess af þér. Og ef fólk skilur ekki þegar þú talar íslensku þá er það örugglega stærra vandamál fyrir það en þig. Þitt hlutverk er að leita allra leiða til að fólk skilji þig og nota til þess „allskonar“ íslensku, einfalda, hægja á þér, endurorða, benda, stytta setningar … Skilji fólk ekki hvað þú segir ætti það að senda þau skilaboð að ef til vill ætti það að leggja harðar að sér við að ná tökum á málinu. Kurteisi og bros er æskilegt undir þessum kringumstæðum. Sé vilji til þess að íslenska verði sjálfgefna málið þarf að hafa fyrir því. Enginn lærir íslenska nema hún sé notuð, fáir telja sig þurfa að nota íslensku sé ekki ætlast til þess af þeim.

-Það er besta mál að kvarta undan því þegar íslenska er ekki í boði. Rétt er þó að beina þeim umkvörtunum á réttan stað. Það er nefnilega sjaldnast starfsfólkið sem leggur línurnar. Það er atvinnurekandinn sem hefur meira um það að segja hvort íslenska sé í boði. Jú, og yfirvaldið líka. Samt er auðvitað enginn ástæða til að skipta yfir á ensku frekar en þú vilt.

-Viðhorfið smá enska hér, smá enska þar skaðar ekki, hvort sem það er á matseðlum, skiltum eða í samskiptum er skaðlegt viðhorf. Það grefur undan íslenskunni smátt og smátt. Margt smátt gerir eitt stórt.

-Enska leiðir saman en sundrar einnig. Hún skapar aðgreiningu: Þeir sem kunna málið og þeir sem kunna það ekki. Hverjir verða fremur ofan á í samfélaginu? Íslenskukunnátta jafnar möguleika fólks og setur það við sama borð. Það er gott að það hafa í huga.

Við þessa punkta má svo spinna að vild.

Það er vonandi að jólagjöf íslensks samfélags til sjálfs síns verði í formi þess að gera íslensku að sjálfgefna málinu á Íslandi.

Höfundur er kennari í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands og stofnandi verkefnisins Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag innan Háskólaseturs Vestfjarða.




Skoðun

Sjá meira


×