Körfubolti

Hafa jafnað við metlið Golden State Warriors

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shai Gilgeous-Alexander hefur varla fengið að spila í fjórða leikhluta í vetur af því að yfirburðir Oklahoma City Thunder hafa verið það miklir.
Shai Gilgeous-Alexander hefur varla fengið að spila í fjórða leikhluta í vetur af því að yfirburðir Oklahoma City Thunder hafa verið það miklir. Getty/Soobum Im

Oklahoma City Thunder er í svaka ham í titilvörn sinni í NBA-deildinni í körfubolta. Þeir hafa unnið 24 af fyrstu 25 leikjum sínum á þessu tímabili.

Oklahoma City vann 138-89 sigur á Phoenix Suns í nótt en þetta var stærsta tapið í sögu Phoenix og stærsti sigurinn hjá einu liði á þessu tímabili enda munaði 49 stigum á liðunum tveimur.

Oklahoma City hefur ekki aðeins unnið alla leiki sína nema einn heldur hefur liðið unnið andstæðinga sína með 17,4 stiga mun að meðaltali á þessu tímabili. Thunder settu sjálfir metið á síðasta tímabili með því að vinna leiki sína þá með 12,9 stiga mun. Sautján af sigrum Thunder á þessu tímabili hafa verið með tveggja stafa mun.

„Það er aldrei leiðinlegt að vinna. Það var tími fyrir nokkrum árum þar sem sumir leikmenn í liðinu okkar máttu þola mjög stór töp,“ sagði framherji Thunder, Jalen Williams, og vísaði til 73 stiga taps gegn Memphis Grizzlies þann 2. desember 2021. Margt hefur breyst síðan þá og núna virðast fá lið eiga svör.

„Ég held að margir strákar hafi það í huga. Jafnvel ég, á mínu fyrsta ári vorum við ekki að vinna mikið – við vorum ágætir, en ég held að ég hafi það í huga. Og maður má ekki verða leiður á þessu,“ sagði Williams sposkur.

Það þykir orðið afrek í vetur fyrir andstæðingana að veita Thunder næga mótspyrnu til að ríkjandi MVP, Shai Gilgeous-Alexander, þurfi hreinlega að spila í fjórða leikhluta. Það gerðist ekki í nótt.

Eftir að hafa skorað 28 stig á 27 mínútum fór Gilgeous-Alexander af velli ásamt restinni af byrjunarliði Oklahoma City þegar 3:32 voru eftir af þriðja leikhluta. Thunder var þá með 41 stigs forystu, sem jókst í allt að 53 stig í fjórða leikhluta.

„Mér fannst við sýna góðan andlegan styrk í kvöld,“ sagði Mark Daigneault, þjálfari Thunder, en lið hans hefur oftar verið með tuttugu stiga forystu eða meira en það hefur lent undir í 25 leikjum.

„Það er erfitt að spila með forystu. Það er erfitt að láta stöðuna ekki trufla sig. Mér fannst hópurinn sem byrjaði þriðja leikhluta koma út og slá fyrsta höggið, og sú orka hélt áfram út þriðja leikhluta. Síðan stóð hópurinn í fjórða leikhluta sig frábærlega í því að spila bara næstu sókn. Þannig byggir maður upp venjur. Maður getur tekið skref aftur á bak í svona leik, jafnvel þótt maður endi á að vinna leikinn,“ sagði Daigneault.

Oklahoma City er með 72-10 sigurtölfræði í síðustu 82 deildarleikjum sínum og hefur unnið andstæðinga sína með 1.189 stigum á þeim tíma. Það er besti stigamunur yfir 82 leikja tímabil í sögu NBA, samkvæmt rannsóknum ESPN.

73 sigra met Golden State Warriors frá 2015-16 virðist innan seilingar fyrir Oklahoma City ef heldur áfram sem horfir. Þetta var sextándi sigur Thunder í röð sem er nýtt met félagsins fyrir lengstu sigurgöngu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×