Innlent

Borgarsögusafn gagn­rýnir rang­færslur varðandi Holts­götu 10

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Holtsgata 10
Vísir/Vilhelm

Borgarsögusafn hefur nú gert athugasemd við að í greinargerð nýs deiliskipulags fyrir Holtsgötu 10 til 12 og Brekkustíg 16 í gamla vesturbænum í Reykjavík er ranglega fari með niðurstöðu safnsins um varðveislugildi eins hússins, Holtsgötu 10.

Í greinargerðinni er sagt að samkvæmt húsakönnun hafi húsið, sem til stendur að rífa, miðlungs varðveislugildi. Hið rétta er, segir í athugasemdum Borgarsögusafns, að húsið var metið með hátt varðveislugildi. Þá segir að sömu rangfærslu sé að finna í gögnum sem lögð voru fyrir Umhverfis- og skipulagsráð í haust og í bókun borgarráðsfulltrúa skömmu síðar.

Á lóðunum stendur til að reisa fjölbýlishús en þær hugmyndir hafa verið gagnrýndar af íbúum á svæðinu og minnihlutanum í Borgarstjórn.

Einnig er fundið að því að á uppdrætti skipulagstillögunnar er merkingum ábótavant því hvorki sé þar gerð grein fyrir verndarstöðu húsa á viðkomandi lóðum, né svokallaðri hverfisvernd sem sé í gildi einnig á svæðinu. Borgarsögusafn mælist því til þess að texti greinargerðarinnar verði leiðréttur og að gerð verði grein fyrir verndarstöðu húsanna á uppdrætti skipulagstillögunnar.


Tengdar fréttir

Óttast að framtíð gamla Vesturbæjarins sé í húfi

Íbúar við Holtsgötu í vesturbæ Reykjavíkur hafa miklar áhyggjur af fyrirhuguðu niðurrifi tveggja húsa til að byggja stærri fjölbýlishús á reitnum. Framtíð hverfisins sé í húfi. Eigandi húss sem stendur til að rífa segir það mjög illa farið. Borgarfulltrúi blæs á gagnrýni að arkitekt sitji beggja vegna borðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×