Innlent

Vilja að borgin selji Car­b­fix og bílastæða­húsin

Atli Ísleifsson skrifar
HIldur Björnsdóttir er leiðtogi Sjálfstæðismanna í borginni.
HIldur Björnsdóttir er leiðtogi Sjálfstæðismanna í borginni. Vísir/Anton Brink

Sjálfstæðismenn í Reykjavík vilja að Reykjavíkurborg selji bæði hlut sinn í Carbfix, Ljósleiðaranum og Malbikunarstöðinni Höfða og sömuleiðis bílastæðahús borgarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjálfstæðismönnum, en borgarfulltrúar flokksins hafa lagt fram 22 tillögur að breytingum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2026 sem kynntar verða í borgarstjórn á þriðjudaginn í næstu viku.

Hluti af tillögunum snýr að eignasölu en sjálfstæðismenn telja rétt að borgin selji eignir sem ekki snúi að grunnþjónustu borgarinnar. Gera tillögur Sjálfstæðismanna ráð fyrir því að söluandvirði af allri eignasölu verði varið til niðurgreiðslu skulda og innviðafjárfestinga.

Haft er eftir Hildi Björnsdóttur, leiðtoga Sjálfstæðismanna í borginni, að Sjálfstæðismenn telji brýnt að borgin dragi úr umsvifum sínum og einbeiti sér að grunnþjónustu við borgarbúa.

„Borgin á ekki að taka að sér verkefni sem betur færu í höndum einkaaðila“, segir Hildur.

Í samtali við fréttastofu segir Hildur að hún telji ljóst að eignasala sem þessi gæti skilað fleiri tugum milljarða króna til borgarinnar.

Selji hlut borgarinnar að fullu

Lagt er til að borgin selji Ljósleiðarann ehf., Carbfix ehf. og Malbikunarstöðina Höfða hf. að fullu. 

„Sala á nettengingum, framleiðsla á malbiki og kolefnisbinding eru ekki hluti af grunnreksti Reykjavíkurborgar auk þess sem hið opinbera á ekki að halda á fyrirtækjum sem starfa á samkeppnismarkaði. Við teljum því eðlilegt að þessar eignir verði seldar“, sagði Hildur.

Bílastæðahúsin verði seld

Hildur segir Sjálfstæðismenn jafnframt leggja til sölu á bílastæðahúsum í eigu Reykjavíkurborgar og öðrum fasteignum sem ekki hýsi grunnþjónustu borgarinnar. Hildur segir tap hafa verið af rekstri bílastæðahúsa síðustu ár og að betur mætti standa að rekstrinum.

„Við leggjum til að þeirri kvöð verði þinglýst á húsin að þar skuli rekin bílastæðaþjónusta og önnur tilheyrandi þjónusta við bifreiðar og aðra fararmáta. En við erum sannfærð um að einkaaðilar gætu staðið betur að þessum rekstri, til að mynda með sólarhringsopnun og fjölbreyttari þjónustu“, segir Hildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×