Handbolti

Ætla að senda skýr skila­boð gegn Ís­landi og gætu fengið vænan bónus

Sindri Sverrisson skrifar
Viola Leuchter og stöllur í þýska liðinu ætla sér langt á HM.
Viola Leuchter og stöllur í þýska liðinu ætla sér langt á HM. Getty/Marco Wolf

Þýska kvennalandsliðið í handbolta byrjar HM á heimavelli, með leik við Ísland í Stuttgart í dag, en ætlar sér langt í mótinu og horfir til þess að keppa um efstu sætin í Rotterdam í lok þess.

Þýska liðið er talið mun sigurstranglegra en það íslenska í dag og það mun reyna á stelpurnar okkar fyrir framan fulla höll í Stuttgart, í leiknum sem hefst klukkan 17 í dag.

„Við erum mjög afslappaðar og andinn góður, jafnvel þó að við vitum að það eru bara nokkrir klukkutímar í að þetta hefjist. Við erum mjög spenntar fyrir mótinu og viljum sýna hvað við getum,“ segir Viola Leuchter, skytta þýska liðsins, við DPA fréttaveituna.

„Við viljum senda skýr skilaboð og sýna úr hverju við erum gerðar, til að fá stuðningsmennina með okkur frá byrjun,“ sagði Leuchter.

Varar við ástríðunni í íslenska liðinu

Þjálfarinn Markus Gaugisch varar við því að íslenska liðið muni mæta til leiks af miklum krafti:

„Við erum með lið þar sem að allar leggja allt í sölurnar. Það veitir manni góða tilfinningu. Íslenska liðið spilar af mikilli ástríðu og við verðum að gera það líka.“

Þýskaland hefur ekki unnið til verðlauna á stórmóti síðan árið 2007 og ljóst að markmiðið er að bæta úr því í ár.

Segir bónusgreiðslur senda sterk skilaboð

Þýska handknattleikssambandið hefur gert það enn eftirsóknarverðara fyrir leikmenn með því að bjóða upp á peningabónus, og munu leikmenn skipta á milli sín yfir sextíu milljónum króna ef þeim tekst að landa heimsmeistaratitlinum.

Liðið fær nefnilega 425.000 evrur fyrir sigur, 300.000 evrur fyrir silfur og 200.000 evrur fyrir brons. Þá eru einnig í boði 100.000 evrur fyrir að ná í undanúrslit og 50.000 evrur fyrir að komast í 8-liða úrslit.

„Okkur finnst við metnar að verðleikum. Eftir að dagpeningarnir voru jafnaðir í byrjun þessa árs þá senda þessar bónusgreiðslur einnig sterk skilaboð. Við leggjum allt í sölurnar til að láta drauma okkar rætast á mótinu,“ segir Antje Döll, fyrirliði liðsins.

Opnunarleikur Þýskalands og Íslands hefst klukkan fimm í dag og verður í beinni textalýsingu á Vísi.

Íþróttadeild Sýnar er í Stuttgart og mun fylgja landsliðinu vel eftir á meðan mótinu stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×