Innlent

Mun funda með Karli konungi

Atli Ísleifsson skrifar
Halla Tómasdóttir, fer í embættisferð til Bretlands dagana 19. til 21. nóvember 2025.
Halla Tómasdóttir, fer í embættisferð til Bretlands dagana 19. til 21. nóvember 2025. Vísir/Vilhelm

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, fer í embættisferð til Bretlands dagana 19.–21. nóvember 2025. Tilefni ferðarinnar er einkafundur forseta með Karli 3. Bretakonungi í Buckinghamhöll fimmtudaginn 20. nóvember.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands. 

Þar segir að í ferðinni muni forseti einnig kynna sér miðstöðina Sustainable Ventures, sem styðji við sprotafyrirtæki sem vinni að sjálfbærni og loftslagslausnum. 

„Forseti heimsækir auk þess tvo háskóla. Fyrri heimsóknin er í King‘s College þar sem hún ræðir við Juliu Gillard, fv. forsætisráðherra Ástralíu, m.a. um leiðtogahæfni og jafnréttis- og loftslagslausnir. Seinni háskólaheimsóknin er í London Business School þar sem forseti ræðir við Costas Markides, prófessor í stefnumótun, um velsældarhagkerfi og áherslur leiðtoga á umbrotatímum.

Í heimsókninni mun forseti líka sækja sendiráð Íslands heim til að hitta Íslendinga búsetta í Bretlandi. Á lokadegi heimsóknarinnar lítur hún við í útibúi 66°Norður við Regent Street og heimsækir „Fish & Chips“ veitingastað Churchill‘s í Uxbridge, vesturhluta London. Þess má geta að Churchill‘s keðjan hefur haft íslenskan þorsk og ýsu á matseðli sínum frá árinu 1981,“ segir í tilkynningunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×