Skoðun

Tolla­deilur og hags­muna­vörn í alþjóða­við­skiptum

Eiríkur Björn Björgvinsson skrifar

Í flóknum heimi alþjóðaviðskipta geta ríki lent í tolladeilum þegar mismunandi hagsmunir rekast á. Slíkar deilur eru algengar í greinum þar sem mikil samkeppni ríkir, til dæmis í framleiðslu á hráefnum eins og kísilmálmi.

Það er ekkert óeðlilegt við að ríki leitist við að vernda eigin efnahagslega hagsmuni. Slík hagsmunavörn er talin eðlilegur hluti af alþjóðlegri samkeppni og samvinnu, óháð stærð ríkja eða pólitískum samböndum þeirra.

Það ætti ekki að koma á óvart að ríki sem tilheyra stærri efnahagsbandalögum njóta oft sameiginlegrar hagsmunavarnar en ríki utan slíkra bandalaga verja sína hagsmuni sjálfstætt. Í báðum tilvikum er grunnstefið það sama: ríki leitast við að tryggja stöðug viðskiptaskilyrði og jafnræði á mörkuðum.

Mörgum Íslendingum finnst eðlilegt að við verndum okkar eigin innlendu framleiðslu með því að leggja á tolla og gjöld á innflutning sem telst vera í samkeppni við þá framleiðslu. Þetta er þá rökstutt með því að verið sé að tryggja fæðuöryggi og til að vernda innlend störf. Af hverju kemur það okkur þá á óvart að aðrar þjóðir skuli á sömu forsendum vernda sína eigin hagsmuni? Þjóðir eins og Spánverjar sem sumir benda á, eins og andstæðingar Evrópusambandsins, að séu með mun hærra atvinnuleysi en við.

Tolladeilur eru yfirleitt leystar samkvæmt reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), sem setur ramma um aðgerðir sem eru heimilar og leiða til úrlausna. Þar er lögð áhersla á gagnsæi, samráð og lausn ágreinings með formlegum ferlum.

Við gerum viðskipta- og varnarsamninga við erlend ríki til að vernda okkar hagsmuni en það leysir okkur ekki undan því hlutverki að vera sífellt á vaktinni. Það gerum við auðvitað best með því að vera í reglulegum samskiptum við þessar þjóðir og að eiga sæti við borðið þar sem samtölin fara fram og ákvarðanirnar eru teknar. Það þekkjum við hvað best á vettvangi NATO. Full aðild að Evrópusambandinu myndi einnig styrkja þetta hlutverk.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og starfsfólk utanríkisráðuneytisins hefur staðið sig vel í að verja okkar hagsmuni gagnvart erlendum þjóðum. Ég treysti engum betur í þeirri hagsmunagæslu.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Sjá meira


×