Innlent

Dular­fullar skemmdir reyndust vera eftir strangheiðarlegt ó­happ

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Óhappið skildi eftir sig skemmdir á húsinu.
Óhappið skildi eftir sig skemmdir á húsinu.

Dularfullar skemmdir sem urðu á fjölbýlishúsi á Klapparstíg reyndust vera eftir seinheppinn bílstjóra vinnuvélar sem rakst utan í húsið. Eigandi vinnuvélarinnar tilkynnti tryggingarfélagi strax um óhappið og taldi að málið væri komið í ferli gagnvart grunlausum íbúum sem furðuðu sig á dularfullum skemmdunum svo ofarlega á húsinu.

Það var fiðluleikarinn og konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands Sigrún Eðvaldsdóttir sem vakti athygli á skemmdunum á íbúahópi miðborgarbúa í Reykjavík á samfélagsmiðlinum Facebook. Þar birti hún mynd af skemmdunum sem eru á ansi óvenjulegum stað á húsinu sem er á horni Lindargötu og Klapparstígs.

„Síðastliðinn föstudagsmorgun milli kl.9 og 10 gerðist sá atburður að það heyrðiust svakalegar drunur og svo kom í ljós að flísar utan á húsinu höfðu sprungið? og hrunið af húsinu okkar,“ skrifaði Sigrún sem tók fram að íbúa grunaði að einhverskonar vinnuvél hefði hreinlega rekist í húsið.

Og jú viti menn það kom á daginn nokkrum dögum eftir að Sigrún birti færsluna. Annað hafi komið á daginn. Sigrún segir í samtali við Vísi málið komið á beinu brautina. Það hafi hlotið farsælan endi.

„Í mig hringdi eigandi vinnuvélarinnar sem varð fyrir því að keyra á húsið. Bílstjórinn var ungur maður. Þeir tilkynntu tryggingarfélagi sínu strax um óhappið og hann hélt að málið væri í ferli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×