Erlent

Mamdani mælist með gott for­skot degi fyrir kosningar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mamdani nýtur mikilla vinsælda en er á sama tíma nokkuð umdeildur. Þá hafa margir viðrað áhyggjur af reynsluleysi hans í stjórnmálum.
Mamdani nýtur mikilla vinsælda en er á sama tíma nokkuð umdeildur. Þá hafa margir viðrað áhyggjur af reynsluleysi hans í stjórnmálum. Getty/VIEWpress/Stephani Spindel

Yfir 735 þúsund íbúar New York hafa kosið utan kjörfundar í borgarstjórakosningunum sem fara fram á morgun, þar af 151 þúsund manns sem greiddu atkvæði í gær.

Um er að ræða fjórum sinnum fleiri atkvæði en greidd voru utan kjörfundar í síðustu borgarstjórakosningum. Að þessu sinni eru í framboði Demókratinn Zohran Mamdani, Repúblikaninn Curtiz Sliwa og Andrew Como, fyrrverandi ríkisstjóri og Demókrati, sem býður sig fram sem óháður.

Samkvæmt New York Times hefur óvenju mikið af ungu fólki greitt atkvæði utan kjörfundar .

Skoðanakannanir benda til þess að Mamdani muni bera sigur úr býtum en hann hefur verið að mælast með yfir 20 stiga forskot.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað talað gegn Mamdani og endurtók hótanir sínar um að halda fjármunum frá New York yrði Mamdani borgarstjóri, í nýju viðtali við fréttaskýringaþáttinn 60 Mínútur.

Þá sagðist hann ekki hrifinn af Cuomo en ef valið stæði á milli „slæms Demókrata og kommúnista“ myndi hann alltaf velja slæma Demókratann. Mamdani er sósíaldemókrati.

Greint var frá því í gær að Mamdani hefði rætt við Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í síma. Obama hefur ekki formlega lýst yfir stuðningi við Mamdani en hefur boðist til að ráðleggja honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×