Innlent

Losun gróður­húsa­loft­tegunda jókst í Reykja­vík

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Samgöngur eiga stóran hlut í losun gróðurhúsalofttegunda.
Samgöngur eiga stóran hlut í losun gróðurhúsalofttegunda. Vísir/Vilhelm

Samfélagsleg losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík jókst um 1,5 prósent á milli ára. Árið 2024 losnuðu 614 þúsund tonn. Aukningin er meðal annars vegna meiri losunar við meðhöndlun úrgangs.

Heildarlosun vegna úrgangs jókst um þrettán prósent árið 2024 og var alls um 86 þúsund tonn af koltvíoxíði. Urðun hefur minnkað undanfarin ár og losun vegna brennslu erlendis aukist. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Samgöngur bera þó meginábyrgð á losun í Reykjavík en um 52 prósent af heildarlosun borgarinnar árið 2024 var vegna samgangna. Meirihluti þess var vegna götuumferðar eða um 263 þúsund tonn af koltvíoxíði. Á móti kemur fer rafmagnsbílum fjölgandi. Þá er stefnt að uppbyggingu almenningssamgangna, líkt og Borgarlínunnar, sem styður við markmið um lægri losun í samgöngum.

Þrettán prósent af heildarlosun borgarinnar er vegna byggingariðnaðarins eða um 81 þúsund tonn af koltvíoxíði. Þar af voru sjötíu þúsund tonn vegna byggingarefna og ellefu þúsund vegna eldsneytisnotkunar við framkvæmdir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×