Innlent

„Vinna er heilsuefling“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK starfsendurhæfingar.
Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK starfsendurhæfingar. vísir/Bjarni

Þjónustugeta Virk starfsendurhæfingar nálgast þolmörk vegna metfjölda sem leitar þangað. Mun fleiri konur en karlar leita sér aðstoðar og forstjóri segir forvarnarstarf mikilvægt til að hindra að fólk detti út af vinnumarkaði. Vinna geti oft verið mikil heilsubót.

Á síðasta ári varð töluverð fjölgun í hópi þeirra sem hófu starfsendurhæfingu hjá Virk. Fjölgunin hefur verið stöðug á síðustu árum en met var slegið í fyrra þegar hátt í 2.600 leituðu sér aðstoðar. Þá má sjá verulega fjölgun á síðustu þremur mánuðum ársins. Um þriðjungi fleiri leituðu til Virk þá en á sama tíma ári áður.

Stöðug fjölgun hefur verið í hópi þeirra sem leita til VIRK. Fjöldinn hefur þó aldrei veirð meiri en í fyrra.vísir/virk

Vigdís Jónsdóttir, forstjóri Virk, segir ástæðu þess til skoðunar.

„Það sem ég á von á er að það tengist innleiðingu á þessu nýja örorkulífeyriskerfi þar sem mikil áhersla er lögð á endurhæfingu. Það eru óvenju margar umsóknir að berast til okkar akkúrat núna en það er ekkert víst að það haldi áfram inn á þetta ár. Við þurfum bara að sjá hvernig það þróast,“ segir Vigdís.

Fjölgunin sé enn viðráðanleg.

„En við höfum þurft að bæta við fólki og erum að gera það. Auðvitað erum við bráðum að koma að ákveðnum þolmörkum en eins og er höfum við ráðið við þetta. Það má þó segja að vissulega er það áhyggjuefni að svona margir þurfi starfsendurhæfingu.“

Virk útskrifar í kringum tvö þúsund manns á ári hverju og segir forstjóri einstaklingana þá snúa aftur á vinnumarkaðinn eða í nám með meiri starfsgetu.vísir/Vilhelm

Hún segir þó jákvætt að fólk sé að leita sér aðstoðar þar sem fólk sé sterkara og með meiri vinnugetu við útskrift. Konur eru um sextíu og átta prósent þeirra sem fara í starfsendurhæfingu. Vigdís segir tölfræðina svipaða í öðrum löndum. Ýmsar ástæður séu fyrir því að fólk leiti í úrræðið.

„Það getur tengst einstaklingnum sjálfum, hans umhverfi og því sem hann hefur lent í, stundum eru það sjúkdómar og fólk þarf að ná vinnugetunni aftur. Það er líka hraði og streita bara í samfélaginu og það eru ekki allir sem ráða við það.“

Vinna sé holl

Hún segir Virk vinna að því að efla forvarnarþjónustu þar sem fólk getur leitað sér aðstoðar og fengið ráð til þess að haldast í vinnu þrátt fyrir að það sé orðið erfiðara af einhverjum ástæðum.

„Vinna er holl, það er mikilvægt að vinna og við getum oft unnið þó við séum eitthvað veik. Það er það sem við erum að vinna með hjá Virk. Það er kannski heilsubrestur hjá viðkomandi en við erum að hjálpa honum að vinna þrátt fyrir heilsubrestinn. Vegna þess að vinna er oft bara mikil heilsuefling í sjálfu sér,“ segir Vigdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×