Erlent

Gera sex hundruð gervi­hnetti fyrir „Gullhvelfinguna“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump þegar hann kynnti áætlanir sínar um umfangsmikið eldflaugavarnarkerfi í Bandaríkjunum.
Donald Trump þegar hann kynnti áætlanir sínar um umfangsmikið eldflaugavarnarkerfi í Bandaríkjunum. Getty/Chip Somodevilla

Fyrirtækið SpaceX, sem er í eigu Elons Musk, auðugasta manns heims, er líklegt til að hljóta tveggja milljarða dala samning frá yfirvöldum í Bandaríkjunum. Fyrirtækið mun því koma að því að þróa og framleiða gervihnattaþyrpingu sem myndi greina og fylgja eldflaugum og flugvélum en þyrpingin yrði liður í nýju eldflaugavarnakerfi sem kennt er við Donald Trump, forseta, og ber nafnið „gullhvelfingin“.

Þetta er samkvæmt heimildum Wall Street Journal sem segir fregnirnar til marks um aukin áhrif SpaceX á sviði þjóðaröryggis í Bandaríkjunum.

Í heildina gætu allt að sex hundruð gervihnettir myndað þessa þyrpingu en SpaceX er þar að auki að vinna að tveimur öðrum gervihnattaþyrpingum fyrir herafla Bandaríkjanna.

Önnur þyrpingin kallast Milnet og gengur út á að flytja skilaboð, upplýsingar og gögn, og hin snýst um að koma hundruð smárra njósnagervihnatta, sem eiga meðal annars að geta myndað yfirborð jarðarinnar í góðum gæðum, á braut um jörðu fyrir herinn og leyniþjónustur Bandaríkjanna.

Sjá einnig: SpaceX vinnur að þyrpingu njósnagervihnatta

Gullhvelfingunni hefur verið lýst sem samblöndu gervihnatta og annarra kerfa sem eiga að finna eldflaugar sem skotið er að Bandaríkjunum og granda þeim. Enn sem komið er hefur varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna ekki gefið upp ítarlegar upplýsingar um hvernig kerfið á að virka.

Þá hefur ráðuneytið ekki gert mjög stóra samninga vegna kerfisins en heimildarmenn WSJ segja von á frekari upplýsingum á næstu vikum.

Trump hefur áður sagt að Gullhvelfingin muni kosta um 175 milljarða dala og vill hann að kerfið verði komið í notkun áður en kjörtímabili hans lýkur í upphafi árs 2029. Sérfræðingar segja líklegt að verðmiðinn verði á endanum mun stærri. Kostnaðurinn gæti farið í mörg hundruð milljarða.

Umsvif SpaceX í geimnum hafa aukist til muna á undanförnum árum en forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu um miðjan október að búið væri að koma rúmlega tíu þúsund Starlink-gervihnöttum á braut um jörðu. Það er gervihnattaþyrping sem hægt er að nota til að komast á netið nánast hvar sem er í heiminum.

SpaceX hefur sett fjölmarga gervihnetti á vegum yfirvalda í Bandaríkjunum á braut um jörðu og hefur flutt geimfara og birgðir til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar.


Tengdar fréttir

Skorar vestrið á hólm í 21. aldar einvígi

Valdimír Pútín, forseti Rússlands, skoraði í morgun Vesturlönd á hólm í Úkraínu. Pútín sagði að Vesturlönd ættu að koma öllum sínum bestu loftvarnarkerfum fyrir í Kænugarði og reyna að stöðva eldflaugaárás Rússa á borgina. Hann sagði vestræn loftvarnarkerfi ekki eiga séns á að stöðva nýlega eldflaug Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×