Skoðun

Sér­ís­lensk hávaxtastefna

Sigurjón Þórðarson skrifar

Á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis sagði seðlabankastjóri að væru menn ósáttur við lög og reglur varðandi verðbólgumarkmið Seðlabankans, þyrfti Alþingi að breyta lögunum.

Þetta kann að vera rétt. En áður en til þess kemur er rétt að vekja athygli á að í fjölda ríkja Evrópu er verðbólga er á svipuðu róli og hér og jafnvel meiri, m.a. í Litháen, Lettland, Slóvakía og Bretlandi. Holland og Noregur eru síðan ekki langt undan.

Í engu þessara landa eru stýrivextir nærri þeim 7,5 prósentum sem vextirnir eru hér. Það er áhugavert að bera saman Ísland og Bretlandi þar sem verðbólga er svipuðu. Engu að síður eru stýrivextir 88 prósentum hærri hér en í Bretlandi.

Seðlabankinn virðist því beita öfgakenndari vaxtahækkunum en þekkist á öðru byggðu bóli í Evrópu ef frá eru talin stríðshrjáð ríki.

Vaxtaokrið hefur afleiðingar

Hér hafa minni fyrirtæki þurft að greiða ríflega tíu prósenta vexti svo árum skiptir. Þau hafa engin úrræði önnur en hleypa kostnaðinum út í verðlagið. Það ætti því ekki að koma neinum jarðtengdum fjármálasérfræðingi á óvart að vaxtastefnan nær ekki tilætluðum árangri.

Það blasir við að verðbólgan hér er að mestu drifin áfram af skorti á húsnæði og samkeppni. Hún verður varla kveðin niður með því að leggja stein í götu í byggingu húsnæðis með miklum vaxtakostnaði. Það er engu líkara en að peningastefnunefnd hafi misst allt jarðsamband.

Í dag er ferðaþjónustudagurinn. Ef allt væri með felldu stæði ferðaþjónustan, sem er útflutningsgrein, í miklum blóma. En þrátt fyrir mikinn fjölda ferðamanna um allt land, grefur vaxtastefnan augljóslega undan gróskumiklum rekstrinum og kemur sömuleiðis í veg fyrir frekari fjárfestingar.

Fjárfesting dagsins i dag markar lífskjör framtíðarinnar

Háir vextir hvetja ekki til þess að fjármagn leiti til framtíðarávöxtunar í innviðum, húsnæðisuppbyggingu né til uppbyggingar í atvinnurekstri sem skilar ávöxtun til framtíðar.

Óbreytt séríslensk vaxtastefna er komin í óefni.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins




Skoðun

Skoðun

Einu sinni enn

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ég hef…

Karólína Helga Símonardóttir skrifar

Sjá meira


×