Innlent

Af­lýsa verk­falli öðru sinni

Árni Sæberg skrifar
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra. Vísir/Vilhelm

Flugumferðarstjórar hafa aflýst verkstöðvun sem átti að hefjast á morgun. Tugir flugferða til og frá Keflavíkurflugvelli voru undir. 

Þetta staðfestir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari en Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.

Ástráður segir ekki liggja fyrir hversu lengi fundur Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins mun standa í dag.

Annað verkfall flugumferðastjóra var áætlað klukkan tvö eftir hádegi á morgun fimmtudag og átti standa yfir til klukkan sjö annað kvöld. Hefði orðið af verkfallinu hefði engin umferð verið leyfð á flugstjórnarsviði Keflavíkurflugvallar á meðan á því stæði.

Samtals eru fimmtíu og þrjár komur og brottfarir flugvéla áætlaðar á Keflavíkurflugvelli á meðan verkfallið átti að standa yfir og ljóst að það hefði raskað áætlunum þúsundum farþega.

Fundurinn í gær olli vonbrigðum

Fundi deiluaðila var frestað í gær en nýr fundur hófst klukkan ellefu í morgun og Arnar Hjálmsson formaður Félags flugumferðastjóra sagði fyrir þann fund að viðræður á fundinum í gær hafi gengið hægt.

„Vonbrigði hvað kom lítið út úr fundinum í gær en samt smá glufa þannig að við ákváðum að halda áfram í dag,“ sagði Arnar í samtali við fréttastofu í morgun.

Ein vinnustöðvun raungerst

Þetta er í annað skipti sem flugumferðarstjórar aflýsa vinnustöðvun í yfirstandandi kjaradeilu við Samtök atvinnulífsins. Það gerðu þeir að kvöldi mánudags en þá átti verkfall að hefjast nóttina eftir.

Fyrsta verkstöðvun af fimm sem boðaðar voru hófst klukkan 22 á sunnudagskvöld og stóð í fimm klukkustundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×