Innlent

Á­sýndin að fjöl­miðlum hefnist fyrir að gagn­rýna ríkis­stjórnina

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigurður Örn Hilmarsson er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigurður Örn Hilmarsson er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Minnihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis leggst gegn lækkun hlutfalls endurgreiðslustuðnings við einkarekna fjölmiðla. Framsögumaður segir frumvarpið senda þau skilaboð að fjölmiðlum hefnist fyrir að gagnrýna ríkisstjórnina. 

Fjölmiðlafrumvarp Loga Einarssonar menningarráðherra fékk afgreiðslu innan Allsherjar- og menntamálanefndar í vikunni og fór 2. umræða fram í dag. Meirihlutinn sendi frumvarpið óbreytt úr nefndinni en fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks vildu gera breytingar á hámarksstyrkjum. Ráðherra leggur til að þeir verði lækkaðir úr 25 prósentum í 22, breyting sem hefur einungis áhrif á miðla tveggja fyrirtækja, Sýnar og Árvakurs.

Sigurður Örn Hilmarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og framsögumaður breytingatilögunnar, segir ásýnd málsins ljóta.

„Tilteknir þingmenn meirihlutans hafa á þessu ári talað um að endurskoða styrki til nákvæmlega þeirra fjölmiðla sem verða fyrir þeirri skerðingu sem var samþykkt hér í dag. Með því er verið að senda þau skilaboð að gagnrýnum fjölmiðlum hefnist fyrir það að gagnrýna þessa ríkisstjórn. Ásýnd málsins er að þeim sökum mjög slæm,“ segir Sigurður Örn. 

Málið sé óheppilegt og hefði verið skárra að halda prósentunni eins. Tillaga minnihlutans var hins vegar felld.

„Sérstaklega í ljósi þess að til stendur að endurskoða þetta kerfi í heild sinni á næsta vorþingi. Þess vegna fannst okkur mjög óheppilegt að lækka þessar greiðslur til þessara tveggja fjölmiðla þegar sú endurskoðun er handan við hornið,“ segir Sigurður Örn. 

Vísir er í eigu Sýnar. 


Tengdar fréttir

Leggjast gegn hlutfallslækkun stuðnings við einkarekna fjölmiðla

Minnihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis vill að hlutfall endurgreiðslustuðnings við einkarekna fjölmiðla verði áfram 25% í stað 22% líkt og boðað er með frumvarpi Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Það sé mat minnihlutans að með frumvarpinu í núverandi mynd felist skilaboð um að ríkisstjórnin sé óánægð með störf gagnrýnna fjölmiðla. Þá vill minnihlutinn sjá Rúv hverfa af auglýsingamarkaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×