Sport

Sundstjarna hættir ó­vænt 25 ára: „Allir draumarnir rættust“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ariarne Titmus vann til fernra verðlauna á Ólympíuleikunum í París á síðasta ári.
Ariarne Titmus vann til fernra verðlauna á Ólympíuleikunum í París á síðasta ári. getty/Christian Liewig

Ástralski Ólympíumeistarinn Ariarne Titmus er hætt að keppa í sundi, aðeins 25 ára. Hún greindi frá ákvörðun sinni í tilfinningaríkri færslu á Instagram.

Titmus varði titil sinn í fjögur hundruð metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í fyrra. Hún vann alls fern gullverðlaun á Ólympíuleikum, tvö í Tókýó 2021 og tvö í París í fyrra.

Titmus vinnur þó ekki fleiri Ólympíugull því hún hefur sett punktinn aftan við sundferilinn.

„Í dag hættir þú í keppnissundi. Þú eyddir átján árum í lauginni að keppa. Í tíu af þeim varstu fulltrúi lands þíns. Þú tókst þátt í tvennum Ólympíuleikum, og það sem meira er, þú vannst!!! Draumarnir sem þig dreymdi, þeir rættust allir. Þú afrekaðir meira en þú hélst nokkurn tíma að þú gætir og þú ættir að vera svo stolt,“ skrifaði Titmus á Instagram en þar birti hún bréf til sjálfs síns sem sjö ára barns.

„Þú ert nýorðin 25 ára og finnst rétti tíminn til að hætta í sundi. Eftirför var linnulaus og þú gafst allt sem þú áttir í hana. Þú gengur í burtu vitandi að þú snerir við hverjum steini, engin eftirsjá. Þú ert sátt og hamingjusöm. Það sem framundan er spennandi. Ný markmið, meiri tími með fólkinu sem þú elskar mest og tækifæri til að setja sjálfa þig í fyrsta sætið af heilum hug, ekki íþróttina þína.“

Fyrir tveimur árum gekkst Titmus undir aðgerð þar sem tvö góðkynja æxli voru fjarlægð úr eggjastokkum hennar.

Titmus á heimsmetið í tvö hundruð metra skriðsundi, 1:52,23, en hún setti það sumarið 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×