Fótbolti

Ekki al­var­leg meiðsli hjá Mbappé

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe meiddist á ökkla í gærkvöldi og bað um skiptingu.
Kylian Mbappe meiddist á ökkla í gærkvöldi og bað um skiptingu. EPA/YOAN VALAT

Ökklameiðsli franska framherjans Kylian Mbappé eru ekki alvarleg en þó nógu slæm til að hann missi af leiknum á móti Íslandi á Laugardalsvellinum á mánudaginn.

Mbappé þurfti að fara af velli vegna meiðsla undir lok leiksins gegn Aserbaídsjan í gærkvöldi.

Hann skoraði og lagði upp mark í leiknum sem Frakkland vann 3-0. Þetta var tíundi leikurinn í röð sem Mbappé skorar með annaðhvort Real Madrid eða franska landsliðinu.

Mbappé bað um skiptingu undir lok leiksins og ákveðið var að franska stjarnan myndi fara aftur heim til Madrídar þar sem hann fór í nánari skoðun.

Didier Deschamps, þjálfari franska liðsins, var spurður út í meiðsli Mbappé eftir leikinn.

„Hann fékk aftur högg á sama ökkla. Verkurinn minnkar þegar hann hvílir sig. Í leik verða auðvitað snertingar. Við skoðum þetta síðar. Hann finnur fyrir óþægindum sem eru ekki heppileg fyrir hann,“ sagði Deschamps um ökklameiðsli Mbappé.

Fótboltablaðamaðurinn Fabrizio Romano skrifar á X í morgun að ökklameiðsli Mbappé séu ekki alvarleg.

Frakkinn fór í skoðun í morgun og er búist við að hann verði klár í slaginn í næstu viku, skrifar Romano.

Mbappé er nú bara fjórum mörkum frá markameti Olivier Giroud með franska landsliðinu en Giroud skoraði 57 mörk fyrir landsliðið. Mbappé er nú kominn með 53 mörk í aðeins 93 leikjum.

Þrjú af þessum mörkum hafa komið í þremur landsleikjum á móti Íslandi þar af í 2-1 sigrinum í leik þjóðanna í september. Mbappé hefur einnig lagt upp fjögur mörk í leikjunum þremur og því komið að sjö frönskum mörkum í þremur leikjum á móti Íslandi.

Mbappé hefur einnig skorað í öllum leikjum sínum á tímabilinu nema einum sem var í 2-1 sigri Real Madrid á móti Mallorca í spænsku deildinni 30. ágúst síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×