Sport

Semenya hættir bar­áttu sinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caster Semenya var yfirburðarkona í 800 metra hlaupi þar til að hún var sett í bann.
Caster Semenya var yfirburðarkona í 800 metra hlaupi þar til að hún var sett í bann. EPA/JEAN-CHRISTOPHE BOTT

Suður-afríska frjálsíþróttakonan Caster Semenya hefur nú hætt baráttu sinni fyrir tilverurétti sínum í frjálsum íþróttum.

Semenya hefur síðustu ár leitað réttar síns eftir að henni var meinað að keppa í sinni grein í frjálsum íþróttum. Evrópudómstóllinn komst hins vegar að því í sumar að Semenya hafi ekki fengi sanngjarna meðferð í hæstarétti í Sviss.

Semenya er nú orðin 34 ára gömul og hefur ákveðið að halda ekki áfram með málið. Patrick Bracher er lögfræðingur hennar og staðfesti það við AP að hún sé hætt.

„Dómsmáli Caster var tekið fyrir á hæsta mögulega dómstigi með mjög jákvæðri niðurstöðu en við munum ekki halda áfram með málið eins og kringumstæðurnar eru,“ sagði Patrick Bracher. Hún hefði þurft að byrja aftur að þræða hvern dómstólinn á fætur öðrum. 

Semenya vann tvö Ólympíugull og þrjá heimsmeistaratitla í 800 metra hlaupi kvenna en hefur verið í banni frá árinu 2018 af því að hún neitar að taka lyf sem minnka magn testósteróns hormónsins í líkama hennar.

Hún hefur barist fyrir rétti sínum í næstum því tíu ár en Alþjóða frjálsíþróttasambandið neitar að samþykkja hana sem konu með svo mikið magn karlhormónsins testósteróns í líkama hennar.

Frá og með 1. september síðastliðnum þurfa síðan að allar konur sem keppa á vegum Alþjóða frjálsíþróttasambandsins að gangast undir kynjapróf sem sanna að þær séu fæddar konur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×