Fótbolti

Baulað á Figo í Barcelona: „Portúgalinn er ekki vel­kominn hér“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Figo fékk að heyra það í Barcelona.
Figo fékk að heyra það í Barcelona.

Luis Figo lét sjá sig á stórleik kvöldsins í Meistaradeildinni sem sendiherra UEFA en baulað var á Portúgalann þegar hann birtist á stóra skjánum í leik Barcelona og PSG.

Leikurinn fór fram á Ólympíuleikvanginum í Barcelona, vegna þess að framkvæmdum er ekki lokið á Nývangi.

Figo sat í stúkunni með fleira mektarfólki frá UEFA og birtist á stóra skjánum í hálfleik en þá hófu Börsungar söng sem hljóðaði svo:

„Portúgalinn er ekki velkominn hér. Portúgalinn er tíkarsonur“ samkvæmt spænska miðlinum Marca.

Portúgalinn var eitt sinn leikmaður Barcelona og vann tvo deildartitla á árunum 1995 til 2000 en fór til Real Madrid í einum umdeildustu félagaskiptum allra tíma þegar Florentino Perez settist í forsetastól Madrídarliðsins.

Þegar Figo sneri aftur til Barcelona sem leikmaður Real Madrid var honum mætt af eins mikilli vanvirðingu og sést hefur í nútímafótbolta. Aðskotahlutum var kastað inn á völlinn og ýmsum hrópum var húrrað í átt að honum. Þegar hann sneri aftur í annað sinn sem leikmaður Real Madrid var svínshöfði kastað inn á völlinn, til táknmyndar um svikin.

Þó rúmlega tveir áratugir séu liðnir síðan virðast Börsungar ekki enn tilbúnir að fyrirgefa Figo, en engum svínshöfðum var þó kastað í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×