Erlent

„Dimmur dagur“ í sögu Slóvakíu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu.
Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu. EPA

Breytingar á stjórnarskrá Slóvakíu sem samþykktar voru fyrir helgi viðurkenna nú einungis tvö kyn. Forsvarsmaður hinsegin samtaka segir að um „dimman dag“ sé að ræða.

Atkvæðagreiðslan var fyrir helgi en til að ná breytingunum í gegnum þingið þurftu tveir þriðju þess að samþykkja í atkvæðagreiðslu. Af 150 þingmönnunum samþykktu níutíu breytinguna, þeirra á meðal tólf þingmenn úr minnihluta þingsins.

Meðal breytinganna er að slóvakísk yfirvöld viðurkenna einungis tvö kyn, karl og konu. 

Forsvarsmenn Iniciatíva Inakosť, samtaka sem berjast fyrir réttindum, lýsa deginum sem „dimmum degi.“ Þau hafi fengið yfir hundrað símtöl frá áhyggjufullum íbúum landsins og segja breytingarnar hafa bein áhrif á daglegt líf trans fólks og intersex fólks.

„Fólk er hrætt, stressað og upplifir sig sem vanmáttugt þar sem það er orðið að gíslum stjórnmálamanna með þessari breytingu,“ segir Martin Macko, framkvæmdastjóri samtakanna, í samtali við The Guardian.

Breytingin gerir samkynhneigðum pörum nær ómögulegt að ættleiða börn og þurfa foreldrar að veita sérstakt leyfi til að börn þeirra fái að læra kynfræðslu.

Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, komst til valda árið 2023 og hefur síðan ítrekað dregið úr fjármögnun fyrir verkefni tengd málefnum hinsegin fólks. Boris Susko dómsmálaráðherra sagði á þinginu að Slóvakía væri að hverfa aftur til hefðbundinna gilda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×