Innlent

Arnar­flug lifað lengst í sam­keppni við Icelandair

Kristján Már Unnarsson skrifar
Boeing 737-þota Arnarflugs með DC 8-þotu Icelandair í baksýn að aka frá gömlu flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Arnarflug lifði í fjórtán ár.
Boeing 737-þota Arnarflugs með DC 8-þotu Icelandair í baksýn að aka frá gömlu flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Arnarflug lifði í fjórtán ár. Úr safni fyrrverandi starfsmanna Arnarflugs

Allt frá sameiningu Flugfélags Íslands og Loftleiða fyrir ríflega hálfri öld hafa minnst fimm íslensk félög verið stofnuð til að keppa við Icelandair í farþegaflugi til og frá Íslandi. Öll hafa þau farið á hausinn.

Sagan var rifjuð upp í fréttum Sýnar en Icelandair fagnaði því í sumar að áttatíu ár voru liðin frá fyrsta millilandaflugi Íslendinga. Fyrsta ferðin var á Catalina-flugbát Flugfélags Íslands til Skotlands. 

Millilandaflugið hófst þó vart af alvöru fyrr en Loftleiðir og Flugfélag Íslands tóku fjögurra hreyfla Skymaster-flugvélar, eða fjarkana, í þjónustu sína. Frá árinu 1948 háðu flugfélögin harða samkeppni um hylli flugfarþega sem stóð yfir í aldarfjórðung allt til ársins 1973 þegar stjórnvöld í raun knúðu þau til sameiningar. Ástæðan var sú að ríkisstjórnin óttaðist að samkeppnin myndi keyra bæði félögin í þrot en flugrekstur var þá orðinn þýðingarmikill þáttur í þjóðarbúskap landsmanna.

Boeing 720-þota Air Viking. Þessi flugvél fór síðar til Arnarflugs.wikipedia/Steve Fitzgerald

Hið sameinaða félag Flugleiðir sat þó ekki eitt að markaðnum því Guðni Þórðarson, eigandi ferðaskrifstofunnar Sunnu, sem stofnað hafði Air Viking árið 1970, birtist sem stormsveipur með kaupum á tveimur Boeing 720 þotum árið 1974. Þótt Air Viking sinnti ekki áætlunarflugi tókst félaginu engu að síður með ódýru leiguflugi að ná til sín umtalsverðum farþegaflutningum, bæði til sólarlanda og einstakra borga.

Þegar Air Viking fór í þrot árið 1976 var Arnarflug stofnað og tók yfir reksturinn. Arnarflug lét sér ekki nægja leiguflug heldur hóf einnig áætlunarflug til evrópskra borga sem og innanlandsflug. Arnarflug fór í þrot árið 1990 eftir fjórtán ára starfstíma.

Boeing 737-þota Iceland Express.skjáskot/Stöð 2

Iceland Express kom inn á flugmarkaðinn árið 2003 og var helsti keppinautur Icelandair um níu ára skeið. Félagið var þó ekki sjálft með flugrekstrarleyfi og reksturinn rann á endanum inn í Wow Air árið 2012 áður en það varð gjaldþrota.

Skúli Mogensen hafði kynnt stofnun stofnun Wow Air haustið 2011 og náði hann á sjö árum að gera Wow að næst stærsta áætlunarflugfélagi Íslendinga með tuttugu þotur í rekstri. Allt voru þetta Airbus-þotur, þar á meðal breiðþotur. 

Skúli Mogensen fagnar fyrstu Airbus A321-þotu Wow Air á Reykjavíkurflugvelli árið 2015.Vilhelm Gunnarsson

Með Wow fjölgaði mjög íslenskum starfsmönnum í fluginu en þegar mest var störfuðu um ellefuhundruð manns hjá félaginu. Wow fór í þrot í marsmánuði 2019 en það er enn í dag langstærsta íslenska félagið sem keppt hefur við Icelandair í millilandafluginu.

Flugfélagið Play byggðist upp af rótum Wow Air og þaðan komu margir af lykilmönnum þess. Vegna covid-heimsfaraldursins dróst þó að Play kæmist á laggirnar og var fyrsta flug þess vorið 2021, tveimur árum eftir fall Wow. Play virtist fara vel af stað, byggði upp flota Airbus-véla, og aðeins tveimur árum eftir fyrsta flugið tók það við sinni tíundu þotu beint úr verksmiðju Airbus.

Niceair reyndist skammvinn tilraun Norðlendinga til að halda úti íslensku millilandaflugi milli Akureyrar og borga Evrópu.Vísir7Tryggvi

Um líkt leyti og Play var að byggjast upp fóru Norðlendingar af stað með stofnun Nice Air, sem þó var líkt og Iceland Express ekki með eigið flugrekstrarleyfi. Fyrsta flug Niceair var í júní 2002 en rekstri þess lauk aðeins tíu mánuðum síðar.

Núna þegar örlög Play eru ráðin og saga allra hinna félaganna er rifjuð upp spyrja eflaust margir: Er fullreynt að hægt sé að reka tvö íslensk flugfélög í farþegaflugi til og frá landinu eða munu fleiri reyna síðar?


Tengdar fréttir

Fagna áttatíu ára afmæli millilandaflugs Íslendinga

Icelandair fagnar því um þessar mundir að áttatíu ár eru liðin frá fyrsta millilandaflugi Íslendinga. Afmælisins var sérstaklega minnst á flugvellinum í Glasgow í fyrradag en fyrsta flugið frá Íslandi var einmitt til Skotlands.

Flugvélarnar sem gerðu Loftleiðir að stórveldi

Velgengni Loftleiða í Norður-Atlantshafsfluginu hófst fyrir alvöru með DC 6B-flugvélum. Það voru hins vegar Rolls Royce 400-skrúfuþoturnar, CL-44, eða monsarnir, sem gerðu Loftleiðir að stórveldi í íslensku efnahagslífi.

Koma fyrstu þotunnar einn af hápunktum flugsögu Íslands

Koma Gullfaxa, fyrstu þotunnar, er einn af hápunktum flugsögu Íslendinga. Í þættinum Flugþjóðin á Stöð 2 rifja fyrrverandi starfsmenn Flugfélags Íslands upp þætti úr sögu félagsins, þar á meðal daginn þegar Boeing 727-þotan lenti á Reykjavíkurflugvelli í júnímánuði 1967.

Gullaldarárin þegar flugið varð stór uppspretta þjóðartekna

Loftleiðabyggingarnar á Reykjavíkurflugvelli eru helsta táknmynd þess peningaflæðis sem fylgdi sókn Íslendinga inn á alþjóðlegan flugmarkað á árunum milli 1960 og ‘70 og gerði flugið að einum þýðingarmesta þætti efnahagslífsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×