Enski boltinn

Chiesa ekki með Liverpool til Tyrk­lands

Valur Páll Eiríksson skrifar
Federico Chiesa hefur leikið vel þrátt fyrir fátíð tækifæri það sem af er leiktíð.
Federico Chiesa hefur leikið vel þrátt fyrir fátíð tækifæri það sem af er leiktíð. Getty/Robbie Jay Barratt

Federico Chiesa er ekki í leikmannahópi Liverpool sem heldur til Tyrklands í dag og mætir Galatarasaray í Meistaradeild Evrópu í Istanbúl annað kvöld.

Chiesa hefur farið mikinn í undanförnum leikjum. Hann lagði upp bæði mörkin og var langbesti leikmaður vallarins í 2-1 sigri á Southampton í deildabikarnum í síðustu viku og skoraði eina mark Púllara í 2-1 tapi fyrir Crystal Palace um helgina.

Hann skoraði þá eitt marka Púllara í sigri á Bournemouth í fyrstu umferð ensku deildarinnar.

Chiesa var utan Meistaradeildarhóps Liverpool sem lagður var inn til UEFA í byrjun september en liðið gat nýtt nýjar reglur UEFA til að bæta honum við hópinn í stað landa hans Giovanni Leoni, sem sleit krossband í áðurnefndum leik við Southampton og spilar ekki meira í ár.

Þrátt fyrir að Chiesa hafi verið bætt í Meistaradeildarhóp liðsins ferðast hann ekki með því til Tyrklands samkvæmt James Pearce, sem fjallar um Liverpool fyrir hönd breska miðilsins The Athletic.

Aðrir leikmenn eru heilir og heldur hefðbundinn hópur til Tyrklands þar sem Púllarar heimsækja Tyrklandsmeistara Galatasaray annað kvöld.

Leikur Galatasaray og Liverpool er klukkan 19:00 annað kvöld og sýndur beint á Sýn Sport Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×