Innlent

„Við viljum bara finna fyrir öryggi“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Robert Chantrey býr á Gamla garði og stundar nám við Háskóla Íslands. Íbúar á Gamla garði hafa mátt búa við ítrekuð innbrot á stúdentagarðana undanfarið.
Robert Chantrey býr á Gamla garði og stundar nám við Háskóla Íslands. Íbúar á Gamla garði hafa mátt búa við ítrekuð innbrot á stúdentagarðana undanfarið. Vísir/Ívar Fannar

Íbúi á stúdentagörðum háskólans segist vilja finna fyrir öryggi en ekki ógn eftir ítrekuð innbrot undanfarið. Óboðnir gestir gerðu sig meðal annars heimakomna í kjallara hússins þar sem þeir gerðu þarfir sínar á gólfið.

Íbúar í Gamla garði hafa undanfarið verið fórnarlömb óboðinna gesta sem ítrekað hafa brotist inn, stolið frá þeim sem þar búa, og jafnvel gert sig heimakomna. Íbúar settu upp skilti þar sem taldir eru dagar sem liðnir eru frá síðasta innbroti en í morgun þurfti að byrja að telja upp á nýtt.

Í gær voru liðnir átta dagar án atvika en í dag er búið að skipta áttunni út fyrir núll.Aðsend

Ástandið á stúdentagörðunum hefur varað síðan í vor og valdið þeim sem þar búa miklu ónæði. Sameiginleg eldhús eru í húsinu þar sem íbúar deila aðstöðu og geyma sinn mat og drykkjarföng sem ítrekað hefur verið stolið. Eftir að hafa grunað hvert annað í upphafi fóru íbúar að taka eftir fólki koma inn í húsið seint á kvöldin sem ekki bjó þar sjálft.

„Þeir skilja það sem þeir hafa notað eftir úti um allt og láta okkur um að taka til. Fita á brauðristinni diskar á borðunum, bjórdósir á borðunum hérna, smjör á ofninum. Það er matur dreifður um allt eldhúsið.“

„Þetta er frekar niðurdrepandi“

Eftir átta daga daga án innbrots var brotist inn á ný síðastliðna nótt. Íbúar eru uggandi yfir stöðu mála.

„Þetta er ekki gott ef satt skal segja. Fólk táraðist í morgun þegar við sáum að það hafði gerst aftur. Þetta er niðurdrepandi því við vitum hvað þetta er góður staður þegar allt gengur sinn vanagang og það er ekki brotist inn.“

Fyrir utan stuld á mat og drykkjarvörum þá voru ummerki hér kjallara hússins um að dvalið hefði verið í rýminu. Meðal annars var búið að leggja út dýnur og þá hafði viðkomandi gert þarfir sínar á gólfið.

Hafa átt í samskiptum við innbrotsþjófana

Íbúar hafa rekist á mennina og átt þá í samskiptum við þá. Oftast er um að ræða sömu tvo mennina sem hafa komið sér inn í húsið og gert sig heimakomna á sameiginlegu svæði og jafnvel sofnað á sófa.

„Þeir hafa ekki ógnað líkamlega heldur á með hótunum og orðum á sama tíma og lögregla leiðir þá burt í járnum. Segja niðurlægjandi hluti og það er ekkert sérlega skemmtilegt að hlusta á það þegar þú veist hvað þeir hafa gert.“

Félagsstofnun stúdenta sem er rekstraraðili stúdentagarðanna tjáði fréttastofu í dag að öryggisgæsla yrði hert við húsið og þá væri búið að óska eftir samráðsfundi við lögreglu vegna inbrotanna. Robert segir íbúa þakkláta fyrir það sem hefur verið gert til að bæta öryggi en vill að vandamálið verði leyst til frambúðar.

„Við viljum bara fá aftur þá daga þegar það var óhætt að gera hlutina, frekar en að eiga á hættu að koma inn í eldhúsið þar sem eru hnífar í skúffunum og þetta er drukkið fólk, svo þetta er hættulegt. Við viljum bara vera örugg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×