Sport

Fót­bolti og golf lang­vinsælust en hröð fjölgun í sundi og skot­fimi

Sindri Sverrisson skrifar
Iðkunum heldur enn áfram að fjölga í vinsælustu grein landsins, fótbolta.
Iðkunum heldur enn áfram að fjölga í vinsælustu grein landsins, fótbolta. vísir/Diego

Fótbolti er áfram vinsælasta íþróttagrein landsins ef horft er til fjölda iðkana í hverri grein. Golf kemur skammt á eftir en hlutfallslega fjölgaði iðkunum mest í körfubolta, á meðal fimm vinsælustu greinanna.

ÍSÍ birti í dag yfirlit yfir vinsældir íþróttagreina hér á landi árið 2024. Þar er horft til fjölda iðkana en ekki iðkenda, því hver iðkandi getur stundað fleiri en eina grein og jafnvel verið talinn oftar en einu sinni innan sömu greinar, stundi hann íþróttina með fleiri en einu félagi.

Fótbolti er nú með 32.108 iðkanir og fjölgar mest eða um 1.808 iðkanir. Hlutfallslega aukningin er 6% en hún er enn meiri í fimleikum (7%) og körfubolta (9%). Golf er áfram næstvinsælast með 28.045 iðkanir.

Fimm vinsælustu íþróttagreinarnar á Íslandi og fjölgun í þeim á milli ára.

Iðkunum fjölgar einnig mikið í skotíþróttum á milli ára, um rúmlega 1.000 í 6.456, og í sundi um 1.126 í 5.312 iðkanir árið 2024. Hægt er að skoða tölfræðina nánar á vef ÍSÍ.

Íþróttagreinum heldur áfram að fjölga og hefur nú iðkanafjöldi í padel verið skráður í fyrsta sinn. Alls voru 380 skráðar iðkanir í padel og þá fjölgaði iðkunum í pílukasti um 87%, í 464.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×