Innlent

Björg ætlar að láta að sér kveða í Við­reisn

Eiður Þór Árnason skrifar
Björg Magnúsdóttir var aðstoðarmaður Einars Þorsteinssonar borgarstjóra í rúmt ár.
Björg Magnúsdóttir var aðstoðarmaður Einars Þorsteinssonar borgarstjóra í rúmt ár. Vísir/Vilhelm

Björg Magnús­dóttir, fjölmiðla­kona og fyrr­verandi að­stoðar­maður borgar­stjóra, hefur gengið til liðs við Viðreisn og hyggst gefa kost á sér í komandi sveitar­stjórnar­kosningum.

„Um helgina tók ég þátt í mínu fyrsta landsþingi Viðreisnar en ég skráði mig til leiks í flokkinn í sumar eftir mjög miklar vangaveltur og innri leiðangur,“ segir Björg í færslu á Facebook-sinni

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, tilkynnti fyrir viku að hún myndi ekki sækjast eftir því að leiða flokkinn aftur í borgarstjórnarkosningunum sem fara fram í maí á næsta ári. Björg hefur verið orðuð við oddvitasætið samkvæmt heimildum fréttastofu.

Björg hefur komið víða við og starfaði lengi við dagskrárgerð á RÚV. Einnig hefur hún komið að handritsskrifum leikinna sjónvarpsþáttaraða á borð við Ráðherrann og Vigdísi. Hún aðstoðaði svo Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknar í Reykjavík, á meðan hann sat á borgarstjórastóli í rúmt ár.

„Ég trúði á þann meirihlutasáttmála sem unnið var eftir í borginni; setja átti börn í forgang, hraða uppbyggingu húsnæðis og sýna ráðdeild í rekstri ásamt ýmsu öðru - en svo fór sem fór,“ skrifar Björg um þann tíma. Vísar hún þar til meirihlutasamstarfs Samfylkingar, Framsóknar, Viðreisnar og Pírata í borgarstjórn sem upp úr slitnaði í febrúar síðastliðnum. Í kjölfarið var myndaður nýr borgarstjórnarmeirihluti án aðkomu Framsóknar og Viðreisnar.

Skráð í marga flokka

Þótt Björg hafi starfað fyrir oddvita Framsóknarflokksins hefur hún áður tekið þátt í starfi annarra stjórnmálaflokka.

Þannig mætti Björg, á meðan hún gegndi starfi aðstoðarmanns borgarstjóra Framsóknarflokksins, á hverfisfund Sjálfstæðismanna í Fossvogi í febrúar, í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Þá sagðist Björg vera skráð í marga flokka, þar á meðal Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn. 


Tengdar fréttir

Aðalsteinn volgur og Björg orðuð við oddvitann

Aðalsteinn Leifsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, varaþingmaður og fyrrverandi ríkissáttasemjari, íhugar að bjóða sig fram fyrir Viðreisn í Reykjavík í borgarstjórnarkosningum í vor. Fleiri hafa verið orðaðir við framboð fyrir flokkinn í borginni. 

Þórdís Lóa ætlar ekki fram

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borgarstjórn Reykjavíkur, hyggst ekki bjóða sig fram í næstu borgarstjórnarkosningum sem fram fara í maí á næsta ári. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×