Sport

Littler laug því að hann væri hættur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir að vera aðeins átján ára hefur Luke Littler bæði unnið HM og úrvalsdeildina í pílukasti.
Þrátt fyrir að vera aðeins átján ára hefur Luke Littler bæði unnið HM og úrvalsdeildina í pílukasti. epa/PETER POWELL .

Heimsmeistararinn í pílukasti, Luke Littler, brá á leik á samfélagsmiðlum í gær.

Í myndbandi á X sagði Littler að hann væri hættur að keppa, þrátt fyrir að vera aðeins átján ára.

„Ég hef átt frábæran feril og hefði ekki getað beðið um neitt betra. Þetta hafa verið viðburðarrík tvö ár. Ég hef afrekað ýmislegt. Unnið úrvalsdeildina í frumraun minni, sautján ára, níu pílna leikirnir í sjónvarpi, vinna HM átján ára, yngstur allra,“ sagði Littler.

„Ég vil bara þakka öllum aðdáendum mínum. Stuðningurinn sem ég hef fengið hefur ekki verið neitt minna en stórkostlegur. Það kemur kannski flatt upp á marga að ég stígi til hliðar. Þetta var ekki auðveld ákvörðun en núna vil ég einbeita mér að nokkru sem ég virkilega elska.“

Littler stendur svo upp og heyrist segja: „Heldurðu að þau kaupi þetta?“

Ósagt skal látið hversu marga Littler náði að plata með þessu prakkarastriki en ljóst er að hann er hvergi nærri hættur.

Littler keppir á móti í Ungverjalandi um helgina. Strákurinn hefur sankað að sér titlum og viðurkenningum síðan hann skaust fram á sjónarsviðið á HM fyrir tveimur árum og varð meðal annars heimsmeistari í pílukasti í janúar síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×