Innlent

Of­beldi for­eldra gegn börnum jókst um nær helming

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tilvikum ofbeldis foreldra í garð barna fjölgaði um 47 prósent.
Tilvikum ofbeldis foreldra í garð barna fjölgaði um 47 prósent.

Lögreglunni á Íslandi bárust 612 tilkynningar um heimilisofbeldi á fyrstu sex mánuðum ársins, sem jafngildir 102 tilkynningum á mánuði að meðaltali.

Um er að ræða fimm prósent aukningu miðað við meðaltal sama tímabils síðustu þrjú ár.

Frá þessu er greint í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra.

Ef horft er til sama tímabils á síðasta ári nemur aukningin tíu prósentum. 

Tilkynningar um ofbeldi af hálfu maka eða fyrrum maka voru álíka margar og í fyrra en tilkynningum um ofbeldi fjölskyldumeðlims gagnvart systkini, foreldri gegn barni og barni gegn foreldri hefur fjölgað um 29 prósent.

„Lögreglan skráir útköll um ágreining milli skyldra/tengdra aðila þar sem metið er að ekki sé grunur um brot. Alls voru 636 tilkynningar um ágreining milli skyldra/tengdra aðila, sem jafngildir að meðaltali um 106 slík tilvik á mánuði. Lítil breyting er á fjölda slíkra mála samanborið við meðaltal síðust þriggja ára, eða um 1%,“ segir á vef ríkislögreglustjóra.

Hlutfallslega hefur þeim tilvikum fjölgað mest þar sem um er að ræða ofbeldi milli systkina. Þá hefur tilvikum ofbeldis foreldris í garð barna fjölgað um nærri helming, eða 47 prósent. 

Flestar vörðuðu tilkynningarnar hins vegar ofbeldi af hálfu maka eða fyrrum maka en tilvikin töldu 375.

„Fjöldi beiðna um nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili hefur verið hlutfallslega lágur miðað við fjölda tilvika heimilisofbeldis tilkynnt til lögreglu. Á fyrsta hálfa árinu voru beiðnir um nálgunarbann og/eða brottvísun í 60 málum eða í 13% fleiri málum samanborið við meðaltal síðustu 3 ára á undan. Í skýrslunni er gefinn upp fjöldi mála þar sem var beiðni eða ákvörðun um nálgunarbann, og gat verið um að ræða fleiri en eina beiðni eða ákvörðun innan sama máls.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×