Innlent

Bein út­sending: Guðs­þjónusta og setning Al­þingis

Atli Ísleifsson skrifar
Halla Tómasdóttir forseti og Björn Skúlason í guðsþjónustu í Dómkirkjunni í tengslum við þingsetningu í febrúar síðastliðinn.
Halla Tómasdóttir forseti og Björn Skúlason í guðsþjónustu í Dómkirkjunni í tengslum við þingsetningu í febrúar síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Alþingi verður sett í dag og hefst þingsetningarathöfnin klukkan 13:30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn munu svo ganga fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu. Hægt verður að fylgjast með guðsþjónustu og þingsetningunni í beinni útsendingu í spilara að neðan. 

Á vef Alþingis segir að séra Arna Ýrr Sigurðardóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju, muni prédika og séra Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur Dómkirkjunnar, þjóna fyrir altari ásamt biskupi Íslands, Guðrúnu Karls Helgudóttur, sem lýsir blessun. Matthías Harðarson dómorganisti stjórnar Kammerkór Dómkirkjunnar og leikur á orgel.

„Að guðsþjónustu lokinni er gengið aftur til þinghússins og forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, setur Alþingi, 157. löggjafarþing. Kammerkórinn Huldur, undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar, syngur við þingsetninguna.

Hlé verður gert á þingsetningarfundi til kl. 15:30 og þá verður hlutað um sæti þingmanna og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2026 útbýtt,“ segir í tilkynningunni. 

Fylgjast má með útsendingu í spilaranum að neðan. 

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða miðvikudagskvöldið 10. september kl. 19:40.

Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026 fer fram fimmtudaginn 11. september og föstudaginn 12. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×