Fótbolti

Stærsti sigur Ís­lands ekki gegn smá­þjóð

Siggeir Ævarsson skrifar
Guðlaugur Victor fagnar marki sínu í gær, markinu sem kveikti í íslenska liðinu
Guðlaugur Victor fagnar marki sínu í gær, markinu sem kveikti í íslenska liðinu Vísir/Anton Brink

Það er ekki á hverjum degi sem íslenska landsliðið skorar fimm mörk í leik. Ísland lagði Aserbaísjan í gærkvöldi með fimm mörkum gegn engu en þetta var aðeins áttundi leikurinn í sögu landsliðsins þar sem liðið skorar fimm mörk eða fleiri.

Flestir af stærstu sigrum liðsins hafa komið gegn smáþjóðum og oftar en ekki í vináttulandsleikjum. Stærsti sigurinn kom gegn Færeyjum í vináttulandsleik árið 1985 þar sem Ísland fór með 9-0 sigur af hólmi. Ragnar Margeirsson skoraði þrennu í þeim leik og Guðmundur Steinsson tvö.

5-0 sigur Íslands í gær markar því ákveðin tímamót í sögu landsliðsins en þetta er stærsti sigur liðsins ekki gegn smáþjóð. Íbúafjöldi Aserbaísjan telur vel yfir tíu milljónir og landið er því sannarlega ekki smáþjóð ólíkt til dæmis Færeyjum, Liechtenstein og Möltu, þar sem okkar stærstu sigrar hingað til hafa komið.

Það var Twitter aðgangurinn The Sweeper sem vakti athygli á þessu afreki í gærkvöldi. Blaðamaður Vísis lagðist í umfangsmikla rannsóknarvinnu til að staðfesta þessa tölfræði og þetta virðist vera rétt. Þó ber að nefna að Ísland lagði Indónesíu 6-0 árið 2018 en sá leikur var vináttulandsleikur. Sigurinn í gær er því sannarlega stærsti sigur Íslands, ekki á smáþjóð, í keppnisleik þar sem úrslitin skipta einhverju máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×