Skoðun

Við erum ekki valdalausar. Við erum ó­brjótandi

Noorina Khalikyar skrifar

Sem afgönsk kona sem reynir að finna sinn stað í nýju samfélagi, ber ég í brjósti mér bæði sársauka heimalands míns og vonina um frjálsari framtíð. Afganskar konur eru þær þróttmestu í heimi. Við höfum lifað stríðsátök, sáran missi og skort, en aldrei misst trúna á mátt menntunar og tækifæranna sem hún veitir, né tapað reisn okkar.

Systur mínar í Afganistan hafa verið sviptar réttinum til náms og vinnu og réttinum til að fara frjálsar ferða sinna um heimaborg okkar. Þær hafa verið sviptar réttinum til að taka ákvarðanir um eigið líf og framtíð. Það særir mig djúpu sári að horfa upp á heila kynslóð kvenna sviptar draumum sínum. Vegna þessa, held ég fast um drauma mína og nýti hvert tækifæri til frekari menntunar, því ég veit frá fyrstu hendi hverjar afleiðingarnar eru séu þau hrifsuð af manni.

Ég er þakklát UN Women fyrir að standa enn með afgönskum konum og stúlkum. Staðfesta þeirra er okkur áminning um að jafnvel á myrkustu tímum, hefur alþjóðasamfélagið ekki gleymt okkur. Afganskar konur hafa ávallt verið hjarta þjóðarinnar; þær vernda fjölskyldur sínar, menningararf okkar og stappa í okkur stálinu jafnvel þegar allt umhverfis okkur hrynur.

Við erum ekki valdalausar. Við erum óbrjótandi.

Ég vitna í orð Rumi: Upphefjið orð ykkar, ekki raust. Það er regnið sem fær blómin til að vaxa, ekki þrumuveðrið.

Afganskar konur eru regnið; þöglar, staðfastar en fullar af lífsþrótti, tilbúnar til þess að umbreyta mótlæti í blómstur.

Höfundur er afganskur læknir




Skoðun

Sjá meira


×