Erlent

„Furðu­utan­ríkis­stefna“ Trump hafi rekið Ind­land í fangið á Kín­verjum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Pútín, Módí og Xi voru kumpánlegir í Tianjin í Kína í gær.
Pútín, Módí og Xi voru kumpánlegir í Tianjin í Kína í gær. AP

Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur segir „furðuutanríkisstefnu“ Bandaríkjaforseta hafa rekið Indverja í fangið á Kínverjum. Nýlegur fundur leiðtoga Rússlands, Kína, Indlands og fleiri ríkja í Tianjin og stærðarhersýning beint í kjölfarið sé vottur um vaxandi spennu í heiminum.

Erlingur var til viðtals í Reykjavík síðdegis í dag þar sem hann ræddi vendingarnar í alþjóðamálunum en í morgun fór fram stór hersýning í Peking þar sem nýjustu hergögn voru opinberuð og mörg þeirra í fyrsta sinn. Meðal áhorfenda voru þjóðarleiðtogar, meðal annarra Vladímír Pútín Rússlandsforseti og Kim Jong Un einræðisherra Norður-Kóreu.

Í ávarpi sínu við tilefnið sagði Xi Jin Ping forseti Kína að heimurinn stæði enn á ný frammi fyrir tveimur valkostum: stríð eða frið, samvinnu eða ágreining. Fundurinn sem fór fram í gær sem Narendra Modi forsætisráðherra Indlands sótti meðal annarra var á vegum Sjanghaísambandsins. Sambandið er eitt fjölmargra þjóðarsambanda sem Kínverjar hafa staðið að en hafa sjaldan náð miklu flugi. Meðlimir sambandsins eru Kína, Rússland, Úsbekistan, Tadsjíkistan og Kirgisstan, Indland, Pakistan og Hvíta-Rússland.

„Í samhengi við Úkraínu er þetta slæmar fréttir. Samstaðan er ekkert að veikjast [á milli Rússlands og Kína] og fregnir eru af fleiri norður-kóreskum hermönnum á leiðinni þangað. Svo í stóra samhenginu þá er þetta ávísun á stórveldasamkeppni og spennu við Bandaríkin. Evrópa er í svolítið sérkennilegri stöðu því Bandaríkin virðast vera hætt í samstarfi við NATÓ-ríkin að mestu leyti og ekki er hægt að reiða sig á Bandaríkin. Þetta eru óvissutímar,“ segir Erlingur.

Býður Vesturlöndum birginn

Hersýningin í Peking í morgun sé til marks um aukið sjálfstraust Kínverja á alþjóðavettvangi.

„Xi Jin Ping [forseti Kína] hefur sett það á dagskrá að Taívan skuli sameinast restinni af Kína með góðu eða illu. Hann talar líka um í ávarpi sínu um að framundan sé annað hvort tími friðar eða átaka. Hann er að bjóða Bandaríkjunum og Vesturlöndum birginn þarna,“ segir Erlingur.

Er það frekar spurning um hvenær en hvort Kína ræðst á Taívan?

„Nei, ekki alveg þannig þó líkurnar fari vaxandi eftir því sem getan og sjálfstraustið eykst. Þetta er erfitt hernaðarlega en vissulega hefur hagur þeirra vænkast með þessari furðuutanríkispólitík Trump. Samstaða Vesturlanda hefur veikst. Samstaðan um stuðning við Úkraínu boðar heldur ekki gott fyrir stuðning við Taívan,“ segir Erlingur.

Bandaríkin einangri sig

Trump birti í gær færslu á samfélagsmiðlum í kjölfar leiðtogafundarins þar sem hann sagði leiðtogana gera samsæri gegn Bandaríkjunum.

„Eins og flest sem frá honum kemur er þetta ekkert velígrundað viðbragð. Manni hefur virst það vera að þessi Trump-stjórn hafi ekki neins konar heildstæða strategíu um hvernig þeir vilja eiga við Kína. Nú reka þeir Indverja í fangið á Kínverjum með því að setja á þá 50 prósent tolla. Hugmyndin er að þeir hætti að kaupa olíu af Rússum og hjálpi þeim að reka stríðið í Úkraínu en af því að þeir hafa ekki heildstæða sýn þá virðist þetta vera háð einhverjum duttlungum Trump og Inverjar eins og flestir hugsa að þeir geti ekki treyst Bandaríkjunum frá degi til dags,“ segir Erlingur.

Eru Bandaríkin að einangrast?

„Þau eru að einangra sig. Þeir segja: Ameríka fyrst, það þýðir í huga margra sérfræðinga og ég tek undir: Ameríka ein. Þeir hafa komið mjög illa fram við sína nánustu bandamenn, sína nágranna í norðri og suðri. Dani, sem hafa verið mjög tryggir þeim og fært miklar fórnir í Afganistan og Írak með Bandaríkjunum. Þeir fengu aldeilis löðrunginn frá þeim strax og ekki sér fyrir endanum á því með Grænland. Bandaríkin eru að einangra sig mjög alvarlega og það sem Trump-stjórnin virðist halda er að það sé einhvern veginn vænlegst en það er mikill misskilningur,“ segir Erlingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×