Innlent

Þor­gerður á ó­form­legum fundi ESB

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fundinum í Kaupmannahöfn í dag.
Frá fundinum í Kaupmannahöfn í dag.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, sat óformlegan fund utanríkisráðherra Evrópusambandsins í Kaupmannahöfn í dag. Þar var til umræðu innrás Rússlands í Úkraínu og það hvernig hægt væri að herða refsiaðgerðir gegn Rússum og grípa mögulega til aðgerða gegn skuggaflota Rússlands.

Sá floti er meðal annars notaður til að koma rússneskri olíu framhjá viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum.

Þorgerður segir í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu að mikil samstaða hafi ríkt um að standa áfram þétt við bakið á úkraínsku þjóðinni í baráttu þeirra fyrir frelsi og lýðræði.

„Það er óþolandi að Rússar skuli standa í vegi fyrir öllum tilraunum til friðarumleitana og ákallið um réttlátan og varanlegan frið til handa úkraínsku þjóðinni stendur óhaggað ,“ segir Þorgerður Katrín.

„Þessu gegndarlausa ofbeldi Rússa verður að linna og það strax.“

Þá var Þorgerði einnig boðið á óformlega kvöldverð utanríkisráðherra ESB í gærkvöldi. Þar segist hún hafa notað tækifærið til að koma mikilvægum hagsmunum Íslands gagnvart sambandinu á framfæri. Þar á meðal hagsmunum Íslands varðandi verndarráðstafanir.

Þar að auki átti Þorgerður tvíhliða fund með José Manuel Albares Bueno, utanríkisráðherra Spánar. Þau töluðu meðal annars um málefni Gasastrandarinnar og tvíhliða samskipti ríkjanna, eins og fyrirhugaða opnun sendiráðs Íslands í Madríd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×