Sport

Kærustu­par á leið á Ólympíu­leika þar sem þau fá ekki að vera saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kærustuparið Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir og Dagur Benediktsson eru líklega á leiðinni á Ólympíuleikana fyrir hönd Íslands.
Kærustuparið Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir og Dagur Benediktsson eru líklega á leiðinni á Ólympíuleikana fyrir hönd Íslands. Skjámynd/@ruvithrottir

Miklar líkur eru á því að kærustuparið Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir og Dagur Benediktsson muni bæði keppa fyrir hönd Íslands á Vetrarólympíuleikunum á Ítalíu í byrjun næsta árs.

Leikarnir verða haldnir í Mílanó og Cortina d'Ampezzo í ítölsku Ölpunum frá 6. til 22. febrúar 2026.

Hólmfríður Dóra og Dagur ræddu möguleikann á því að keppa saman á Ólympíuleikum í viðtali við Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson í Ríkissjónvarpinu.

Hólmfríður Dóra er 27 ára gömul (fædd 8. janúar 1998) en hefur reynslu af Ólympíuleikum því hún fór á sína fyrstu vetrarólympíuleika árið 2022 í Peking þar sem hún keppti í alpagreinum. Hún náði 32. sæti í risasvigi og 38. sæti í svigi.

Dagur er líka 27 ára gamall (fæddur 17. júní 1998) en hann keppir í skíðagöngu en ekki í alpagreinum. Hann hefur keppt á Ólympíumóti ungmenna en aldrei á sjálfum Ólympíuleikunum. Það stefnir í það að það breytist í febrúar á næsta ári.

Hólmfríður og Dagur segja frá þeirri óvenjulegu stöðu að vera bæði á leiðinni á Ólympíuleika þar sem þau fá ekki að vera saman.

„Þetta yrði alveg stórt fyrir okkur bæði og skemmtileg saga til að segja en við fáum líklegast ekkert að upplifa þetta saman af því að við verðum í sitthvoru Ólympíuþorpinu,“ sagði Dagur.

„Setningarathöfnin er í Mílanó en það verða litlar setningarathafnir í hverju þorpi. Við verðum því ekki einu sinni saman á setningarathöfninni held ég,“ sagði Hólmfríður Dóra.

Þorkell spurði þeim finnist þau græða mikið á reynslu hvors annars.

„Klárlega,“ sagði Hólmfríður.

„Það hjálpar mikið að vera bæði að keppa á hæsta stigi því þótt við séum í sitthvorri skíðaíþróttinni þá sækjum við mikinn innblástur og hjálp til hvors annars,“ sagði Dagur.

„Svo bara að búa saman, hugsa bæði vel um mataræðið, svefn og alla næringu. Hugsa vel um sig. Það hjálpar ótrúlega mikið,“ sagði Hólmfríður.

Alpagreinarnar á Vetrarólympíuleikunum fara fram í Cortina d'Ampezzo en skíðagangan í Tesero.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×