Erlent

Líkam­legar refsingar hamla þroska og hafa á­hættu í för með sér

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um 77 prósent barna í Tógó eru beitt líkamlegu ofbeldi í refsingarskyni.
Um 77 prósent barna í Tógó eru beitt líkamlegu ofbeldi í refsingarskyni. Getty/Anadolu/Omer Urer

Samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) eru börn sem beitt eru líkamlegu ofbeldi í refsingarskyni 24 prósent ólíklegri til að fylgja kúrfu þega kemur að þroska.

Niðurstöðurnar byggja á rannsókn sem gerð var í 49 efnaminni ríkjum heims en áætlað er að allt að 1,2 milljarður barna um allan heim sé beittur ofbeldi í refsingarskyni á ári hverju.

Hugtakið „corporal punishment“ nær, samkvæmt WHO, til allra refsinga þar sem líkamlegu afli er beitt til að valda óþægindum eða sársauka.

„Það liggja nú fyrir yfirgnæfandi vísindaleg gögn sem sýna að líkamlegar refsingar hafa í för með sér margþætta áhættu þegar kemur að heilsu barna,“ hefur Guardian eftir Etienne Krug, framkvæmdastjóra heilbrigðisþátta og forvarna hjá WHO.

Hann segir ofbeldið ekki hafa nein jákvæð áhrif á hegðun, þroska eða velferð barna, né til hagsbóta fyrir foreldra né samfélagið.

Börn sem beitt eru líkamlegu ofbeldi í refsingarskyni eru líklegri til að upplifa kvíða, þunglyndi og tillfinningalegan óstöðugleika, auk þess að hafa lélegra sjálfsmat. Þessir þættir geta síðar leitt til vímuefnaneyslu, ofbeldishegðunar og sjálfsvíga.

Í Afríku og Mið-Ameríku eru 70 prósent barna beitt líkamlegu ofbeldi í refsingarskyni í skóla, einhvern tímann á lífsleiðinni. Þá eru 77 prósent barna á aldrinum tveggja til fjórtán ára beitt líkamlegum refsingum í Tógó, 64 prósent í Sierra Leone, 63 prósent í Serbíu, 32 prósent í Úkraínu og 30 prósent í Kasakstan.

Sextíu og átta ríki hafa bannað líkamlegt ofbeldi gegn börnum í refsingarskyni, þeirra á meðal Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×