Viðskipti innlent

Hætt sem fram­kvæmda­stjóri Klíníkurinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Guðrún Ása Björnsdóttir hætti sem framkvæmdastjóri Klíníkurinnar í síðasta mánuði.
Guðrún Ása Björnsdóttir hætti sem framkvæmdastjóri Klíníkurinnar í síðasta mánuði. Vísir

Guðrún Ása Björnsdóttir er hætt sem framkvæmdastjóri heilbrigðisfyrirtækisins Klíníkurinnar eftir aðeins um eitt og hálft ár í starfi. Við starfinu tekur Kristján Jón Jónatansson.

Engin tilkynning hefur verið gefin út um framkvæmdastjóraskiptin en þegar skrifað var undir samning milli Klíníkurinnar og Sjúkratrygginga um framkvæmd ýmissa aðgerða í gær var Kristján Jón þar fyrir hönd fyrirtækisins. Hann er nú titlaður framkvæmdastjóri á vefsíðu fyrirtækisins.

Guðrún Ása staðfestir í samtali við Vísi að hún hafi hætt störfum í júlí. Kristján Jón, sem nýlega hafi verið ráðinn fjármálastjóri Klíníkurinnar, hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri tímabundið í hennar stað. Hún vildi ekki tjá sig um brotthvarf sitt að öðru leyti. 

Aðalfundur Klíníkurinnar verður haldinn síðar í þessum mánuði.

Guðrún Ása tók við starfi framkvæmdastjóra í fyrra en hún hafði fram að því starfað sem faglegur aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar, þáverandi heilbrigðisráðherra. Hún er læknir og var meðal annars Formaður félags almennra lækna og sat í stjórn Læknafélags Íslands.

Eftirmaður hennar, Kristján Jón, starfaði sem fjármálastjóri Banana ehf. áður en hann var ráðinn til Klíníkurinnar. Hann var áður rekstrarstjóri Samtaka atvinnulífsins og aðalbókari Byko.

Eyjólfur Árni Rafnsson, sem tók við formennsku í stjórn Klíníkurinnar í fyrra, vildi ekki tjá sig um framkvæmdastjóraskiptin þegar eftir því var leitað. Hann var formaður Samtaka atvinnulífsins þar sem Kristján Jón starfaði áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×