Menning

Opnar femínískt myndlistagallerí í Vestur­bænum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Flestir þekkja Snærósu Sindradóttur af störfum hennar í fjölmiðlum en hún hefur ákveðið að söðla um og demba sér á bólakaf á svið menninga og lista.
Flestir þekkja Snærósu Sindradóttur af störfum hennar í fjölmiðlum en hún hefur ákveðið að söðla um og demba sér á bólakaf á svið menninga og lista. Vísir/Bjarni

Um miðjan ágúst mun fjölmiðlakona opna dyrnar að femíníska myndlistagalleríinu SIND. Hún kveðst ekki vita til þess að nokkuð annað gallerí hérlendis byggi á sömu hugsjón. Listakonan Rúrí verður fyrst til að halda einkasýningu í SIND.

Snærós er þekkt fyrir störf sín í fjölmiðlum en fyrir nokkrum árum ákvað hún að söðla um og flytja til Búdapest til að bæta við sig MA gráðu í listfræði og stjórnun með áherslu á sýningarstjórn. Nú er hún flutt aftur til Íslands með glóðvolga gráðu í farteskinu og þann 14. ágúst mun hún opna femínískt myndlistagallerí.

Hvað þýðir það í reynd?

„Það er yfirlýsing um ákveðin vinnubrögð fyrst og fremst, þetta er ástríðuverkefni sem eg er búin að ganga með núna í níu mánuði. Þetta kom þannig til mín. Þetta snýst um að lyfta ákveðnum röddum sem hafa verið hliðsettar í langan tíma í listaheiminum þó að sjálfsögðu standi konur og hinsegin fólk vel hér á landi þá eru gallerí alþjóðleg fyrirbæri sem starfa á alþjóðamarkaði og þetta snýst um að gefa ákveðnum hópum rödd, næra ákveðna samræðu, ákveðið sköpunarfrelsi, ákveðið tjáningarfrelsi og standa vörð um það.“

Snærós kveðst ekki vita hvort sambærilegt gallerí sé til á Íslandi.

„Sem betur fer rúmar listaheimurinn þúsund mismunandi aðferðir til þess að reka gallerí og þetta er mín.“

Í farvatninu eru mörg spennandi verkefni - hún er komin í samstarf við einn forsprakka Pussy Riot en listakonan RÚRÍ mun ríða á vaðið í glænýju galleríi með einkasýningu.

„Hún er stærsti listamaður íslensku þjóðarinnar, einn þeirra, og einn virtasti listamaður í Norður-Evrópu. Hún er brautryðjandi í list um náttúruvernd og sýningin hér er sérstaklega staðsett með hafið hinum megin við garðinn sem þolir ekki alltaf þá veðráttu. Hér flæðir stundum þannig að verkin munu taka mið af því og þessi sýning verður stórkostleg.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.