Skoðun

Þjóðar­at­kvæða­greiðsla vegna um­sóknar um aðild að ESB er stjórnsýslugrín!

Júlíus Valsson skrifar

Lög um þjóðaratkvæðagreiðslur má fyrst og fremst finna í stjórnarskránni og lögum nr. 91/2010 um framkvæmd þeirra. Forseti Íslands getur vísað lögum til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef frumvarp er samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, öðlast það gildi sem lög. Niðurstaðan er lagalega bindandi.

Alþingi getur samþykkt ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Alþingi getur einnig sérstaklega mælt fyrir um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu með stjórnarskrárbreytingu.

Þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi eru í raun pólitískt bindandi, þar sem afar ólíklegt er að Alþingi eða Forseti Íslands gangi gegn vilja þjóðarinnar

Umsókn um aðild að ESB er óheimil samkvæmt stjórnarskránni

Stjórnarskráin heimilar ekki aðild Íslands að ESB. Skilyrði fyrir aðild Íslands er að stjórnarskránni verði breytt og þar kveðið á um heimild stjórnvalda til að framselja ríkisvald til alþjóðlegra ríkjasambanda, eins og ESB.

Fulltrúum Íslands sem taka þátt í viðræðum við ESB er því óheimilt að semja um þau málefni sem stjórnarskráin bannar. Hafa fulltrúar ráðuneytisins upplýst fulltrúa ESB um að stjórnarskráin heimili ekki slíkar samningaviðræður án undanfarandi stjórnarskrárbreytingar?

Er ætlunin að breyta stjórnarskránni eftir á ef þjóðin samþykkir að hefja aðlögunarviðræður, sem utanríkisráðherra kallar gjarnan „samningaviðræður“ eða „aðildarviðræður“?

Er vilji meðal Íslendinga til að afsala fullveldi? Fyrir hvað?

Er líklegt að Íslendingar samþykki svo róttækar breytingar á stjórnarskránni að þær leiði til þess að Ísland láti af fullveldi og framselji valdheimildir til erlends ríkjasambands?

Er vilji hjá meirihluta þjóðarinnar til að afsala sjálfstæði landsins, auðlindum þess, orku, landi, vatni og fiskimiðum? Hvað með löggjafarvaldið, dómsvaldið og framkvæmdavaldið?

Á að fela embættismönnum Evrópusambandsins vald til að hafa áhrif á stjórnun landsins í framtíðinni? Er það sú framtíðarsýn sem við viljum fyrir Ísland? Er það sú framtíðarsýn sem við óskum fyrir komandi kynslóðir Íslendinga sem nú eru að vaxa úr grasi? Hvað stendur þá eftir?

Niðurstaða:

Umræða um þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja aðlögunarferli vegna inngöngu í ESB stenst ekki ákvæði stjórnarskrárinnar, þar sem slíkt ferli krefst undanfarandi stjórnarskrárbreytinga.

Til að setja þetta í samhengi mætti ímynda sér að boðað væri til þjóðaratkvæðagreiðslu um að Ísland innleiddi herskyldu eða dauðarefsingu.

Hvoru tveggja er bannað samkvæmt stjórnarskránni og aðeins mögulegt að undangengnum stjórnarskrárbreytingum og það sama gildir um aðild Íslands að ESB. Myndi íslenska þjóðin samþykkja slíkar róttækar stjórnarskrárbreytingar?

Ekki er hægt að efla til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunarviðræður um inngöngu Íslands í ESB, án undanfarandi stjórnarskrárbreytinga!

Höfundur er læknir.




Skoðun

Sjá meira


×