Upp­gjörið: Víkingur - Vllaznia 4-2 | Víkingar á­fram eftir fram­lengingu

Hörður Unnsteinsson skrifar
Víkingar eru komnir áfram í Evrópu.
Víkingar eru komnir áfram í Evrópu. vísir/diego

Víkingur frá Reykjavík eru komnir áfram í 3. umferð Sambandsdeildar Evrópu eftir 4-2 sigur á albanska liðinu Vllazia á Víkingsvelli í kvöld í framlengdum leik. Víkingsliðið tapaði fyrri leik liðanna í Shkoder í Albaníu fyrir viku síðan með tveimur mörkum gegn einu. Þeir unnu því einvígið samanlagt 5-4 og mæta Bröndby frá Danmörku í næstu umferð keppninnar en fyrri leikur liðanna fer fram á Víkingsvelli eftir slétta viku, fimmtudaginn 7. ágúst.

Heimamenn komust yfir strax á 10. mínútu leiksins þegar Daníel Hafsteinsson skoraði eftir hornspyrnu Helga Guðjónssonar. Boltinn barst alla leið á fjærstöng þar sem Karl Friðleifur Gunnarsson átti skalla að marki sem Aron Jukaj í marki Vllazia varði, en frákastið barst beint fyrir fætur Daníels Hafsteinssonar sem hamraði boltann í hornið fjær. Frábært mark hjá Daníel.

Víkingar voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Vllaznia réðu lítið við Valdimar Ingimundarson, sem dansaði það oft framhjá varnarmönnum albanska liðsins að þeir voru farnir að bregða iðulega á það ráð að kippa honum viljandi niður við litla hrifningu Víkinga.

Það voru hins vegar gestirnir sem að skoruðu næsta mark leiksins á 27. mínútu. Tarik Ibrahimagic sparkaði klaufalega aftan í Bismarck Charles sem sneri baki í markið utarlega í vítateig Víkinga og vítaspyrna réttilega dæmt. Bekim Balaj framherji Vllazia skoraði úr henni af miklu öryggi og jafnaði metin í 1-1.

Það var ljóst strax frá upphafi leiks að Albanirnir ætluðu sér að liggja tilbaka, tefja og freista þess að brjóta upp takt leiksins til að halda góðri stöðu sinni úr fyrri leik liðanna. Sú taktík varð enn bersýnilegri eftir jöfnunarmark þeirra og í rauninni algjört rannsóknarefni að fyrri hálfleik lauk án þess að ungverski dómari leiksins gæfi eitt einasta gula spjald.

Víkingar byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og Valdimar Þór hélt áfram uppteknum hætti að hrella albönsku gestina í Víkinni. Á 55. mínútu dansaði hann framhjá þremur varnarmönnum og lagði boltann á silfurfati á Nikolai Hansen sem kláraði færið af öryggi og kom Víkingum yfir 2-1 og jafnaði þar með einvígið.

Þannig stóðu leikar þangað til á 85. mínútu þegar Víkingar fengu á sig aðra klaufalega vítaspyrnu. Í þetta sinn var það Erlingur Agnarson sem fékk fyrirgjöf í höndina, hárréttur dómur og aftur var það Bekim Balaj sem hamraði boltanum framhjá Pálma í markinu. 2-2 og Albanarnir á leið áfram.

Það tók Víkinga hins vegar ekki nema 90 sekúndur að jafna leikinn að nýju. Gylfi Sigurðsson og Nikolai Hansen náðu frábæru þríhyrningsspili sín á milli sem endaði með því að Nikolai skoraði sitt annað mark í leiknum og jafnaði einvígið að nýju. Framlenging staðreynd í Vikinni.

Þegar liðin gerðu sig klár fyrir framlenginguna sátu Albanarnir allir sem einn á jörðinni fyrir framan bekkinn sinn og virkuðu mjög þreyttir. Víkingar komu miklu orkumeiri inn í framlenginguna og uppskáru mark strax 4. mínútu hennar þegar Róbert Orri Þorkelsson skallaði hornspyrnu Gylfa Sigurðssonar í fjærhornið, enn eitt markið úr föstu leikatriði frá Víkingum í sumar og Víkingar komnir með tangarhald á einvíginu.

Víkingar fengu urmul af tækifærum til að gera út um leikinn í báðum hálfleikum framlengingar. Það besta átti Atli Þór Jónasson þegar hann fékk nægan tíma til að athafna sig inn á vítateig gestanna en bylmingsfast skot hans kastaðist af þverslánni og út.

Gestirnir urðu svo einum manni færri á 111. mínútu þegar varamaðurinn Ensar Tafili fékk sitt annað gula spjald og eftirleikurinn var auðveldur. Það brutust út mikil fagnaðarlæti þegar dómari leiksins Mihály Káprály flautaði leikinn af og frábær sigur Víkinga var staðreynd.

Maður leiksins var klárlega Valdimar Þór Ingimundarson sem hækkaði svo sannarlega á sér verðmiðann, en það má teljast ólíklegt að Víkingar selji kantmanninn knáa eftir þessa frammistöðu í kvöld. Einnig má nefna Gylfa Þór Sigurðsson, sem hafði hægt um sig framan af leik en steig þó upp þegar leið á leikinn og lagði upp tvö síðustu mörk Víkinga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira