Innlent

Vara fólk við því að ganga á nýrunnu hrauninu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Op myndaðist á eina virkna gígnum í gær.
Op myndaðist á eina virkna gígnum í gær. Veðurstofa Íslands

Virkni hefur verið nokkuð stöðug í eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni frá því í gærmorgun en gat opnaðist á gígnum í gær og í gærkvöldi byrjaði að gjósa lítillega úr opinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Hreyfing á ystu hraunjöðrum er mjög lítil en örlítið til norðurs.

„Áfram viljum við ítreka hættuna sem getur skapast af því að ganga á nýlegu hrauni þar sem einungis nokkrir sentimetrar geta skilið á milli harðs hraunyfirborðsins og fljótandi hrauns,“ segir í tilkynningunni.

Veðurstofa spáir stífri suðaustanátt í dag, sem mun blása gasinu til norðvesturs og mengunar gæti því orðið vart í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði. Suðvestlægari vindar munu ríkja annað kvöld og gasmengunin berast til norðausturs. Þá gæti mengun mælst á Vatnsleysu og höfuðborgarsvæðinu.

Lítil sem engin gosmóða hefur mælst á landinu í nótt.

Fylgjast má með stöðu mála á loftgæði.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×