Veður

Allt að ní­tján stiga hiti á Suður­landi

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Maður sólar sig í blíðviðrinu í maí.
Maður sólar sig í blíðviðrinu í maí. Vísir/Anton Brink

Norðvestan 5-13 m/s og bjart veður sunnan heiða í dag, en súld eða dálítil rigning norðanlands. Lægir og styttir upp í kvöld. Hiti frá 8 stigum við norðurströndina, að 19 stigum á Suðurlandi.

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar segir að austur af landinu sé lægð, sem valdi norðangolu eða kalda á norðanverðu landinu, en yfirleitt björtu sunnan heiða.

„Á Grænlandshafi er dálítil hæðarhryggur, sem þokast norðaustur og því lægir og rofar til þegar líður á daginn. Við Nýfundnaland er vaxandi lægð, sem hreyfist norður á bóginn og kemur við sögu á morgun.“

„Mánudagurinn heilsar þó bjartur og þurr um mestallt land, en skil lægðarinnar hreyfist inn á sunnan- og vestanvert landið síðdegis með suðaustanstrekkingi og rigningu. Hægari vindur og áfram þurrt og bjart norðaustanlands. Hlýjast á Norðurlandi þar sem hiti nær sums staðar 20 stigum. Suðlæg átt og víða væta á þriðjudag, en þurrt að kalla og hlýjast norðaustantil.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Sunnan 5-13 m/s og rigning eða súld, en úrkomulítið norðaustantil. Hiti 11 til 20 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á miðvikudag:

Suðvestan 3-10 og skúrir, en yfirleitt þurrt og bjart á Austurlandi. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast austanlands.

Á fimmtudag:

Vestlæg átt, skýjað með köflum og líkur á stöku skúrum. Hiti 10 til 17 stig.

Á föstudag:

Suðlæg átt og bjart veður norðan- og austanlands, annars skýjað og dálítil súld öðru hverju. Hiti 12 til 18 stig, hlýjast norðaustantil.

Á laugardag:

Útlit fyrir suðlæga átt með rigningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×